„Það gerir lífið á flugvelli svo skemmtilegt”

Maren Lind Másdóttir, forstöðumaður mannvirkja og innviða hjá Isavia, var í viðtali við Túrista á dögunum og ræddi þar meðal annars um nýtt farangurskerfi í nýrri austurálmu sem tekið verður í notkun í sumar.

Frétt

Maren Lind Másdóttir, forstöðumaður mannvirkja og innviða hjá Isavia, var í viðtali við Túrista á dögunum og ræddi þar meðal annars um nýtt farangurskerfi í nýrri austurálmu sem tekið verður í notkun í sumar.

„Við verðum með fjögur ný færibönd í fyrsta áfanga. Þau fyrstu tvö verða tekin í notkun í júlí í sumar. Þarna í gegn fer allur farangur sem er að koma með flugi til landsins, Töskurnar koma af hlaðinu, fara á færibönd á fyrstu hæð, þaðan í kjallarann og síðan inn í nýjan komu- og móttökusal. Allur búnaður sem snertir töskuna verður nýr.”

Hún segir að undirbúa verði marga þætti starfseminnar mjög vel áður en svona kerfi er tekið í notkun. „Það gerir lífið á flugvelli svo skemmtilegt - sérstaklega líf á flugvelli sem er að ganga í gegnum framkvæmdafasa. Allir þurfa að vera tilbúnir að nota þann nýja búnað og þá aðstöðu sem við erum að koma upp. Við getum ekki bara sagt: Gjörið svo vel, hér er nýr búnaður og aðstaða! Það verður að vera búið að reikna út hvaða tíma það tekur afgreiðsluaðila að koma koma töskunum inn. Þurfa þeir að breyta verklagi sínu? Þurfa viðhaldsteymin að bæta við sig þekkingu eða breyta þeirra verklagi? Það eru ýmsar pælingar sem fara verður í gegnum áður en svona kerfi er tekið í notkun.”

Hún segir að nýja tæknin muni e.t.v. ekki þýða að farþegar muni fá farangurinn fyrr en nú er, en aðgengið að farangri verður betra og sem og upplifun farþega. „Ólíklegra er að færibandið fyllist og ekkert pláss verði fyrir töskuna þína. Þá erum við að skoða hversu miklar upplýsingar við getum veitt farþeganum um hvar taska hans er í kerfinu.”

Lesa má viðtalið í heild sinni á vefsíðu Túrista.