Um KEF+

Keflavíkurflugvöllur – í stöðugri þróun

KEF+ er hreyfiafl allra verkefna Isavia sem tengjast uppbyggingu flugvallarins. Plúsinn táknar meira – meira rými, aukna getu og þar með enn betri þjónustu.

KEF+ er hreyfiafl allra verkefna Isavia sem tengjast uppbyggingu flugvallarins. Plúsinn táknar meira – meira rými, aukna getu og þar með enn betri þjónustu. Verkefnin eiga það sameiginlegt að gera flugvöllinn betri í takt við þarfir samfélagsins og farþeganna sem um hann fara.

Keflavíkurflugvöllur er stóra gáttin inn í landið og leikur þannig mikilvægt hlutverk við að skapa lífsgæði og velsæld á Íslandi.
Frá opnun hans hafa umsvif vallarins þróast með samfélaginu og sívaxandi fjölda farþega. Þegar fjölgunin fór að líkjast veldisvexti þurfti heilstæða framtíðarsýn fyrir uppbyggingu flugvallarins. Isavia vinnur markvisst að því að gera þessa framtíðarsýn að veruleika, og brúa þannig bilið á milli nútíðar og framtíðar.

KEF+ stígur inn til þess að styðja við stöðuga þróun Keflavíkurflugvallar svo hann geti ávallt mætt þörfum almennings, farþega, flugfélaga og annarra sem starfa á flugvellinum. Stækkun flugstöðvar, efling innviða, úrbætur á flugbrautakerfi og bætt aðkoma að flugstöðinni eru dæmi um verkefni sem munu gera Keflavíkurflugvelli mögulegt að bjóða betri upplifun og þjónustu, nýta tækniþróun og skapa ný tækifæri.

Á sama tíma og þróun Keflavíkurflugvallar stendur yfir fara þúsundir ferðalanga um hann á degi hverjum. Með virku samtali við flugvallarsamfélagið mun KEF+ vinna að því að lágmarka áhrif framkvæmda á starfsemi Keflavíkurflugvallar.

Þróun Keflavíkurflugvallar felur í sér mikla fjárfestingu til framtíðar sem fjármögnuð er með tekjum af starfsemi Keflavíkurflugvallar. Hún byggir á þróunaráætlun til 25 ára þar sem sjálfbærni og hagur samfélagsins eru höfð að leiðarljósi til að tryggja ábyrga þróun Keflavíkurflugvallar fyrir alla landsmenn.

  • Bætt upplifum

    Stærri flugstöð og bætt aðkoma að henni munu bæta upplifun farþega.

  • Betri þjónusta

    Þróun flugstöðvar og flugbrauta tryggir farþegum og flugfélögum betri þjónustu.

  • Ábyrg uppbygging

    Skýr og mælanleg sjálfbærnimarkmið draga úr kostnaði og umhverfisáhrifum.

  • Langtímahugsun

    Þróunaráætlun til 25 ára tryggir langtímahugsun við ákvarðanir um þróun Keflavíkurflugvallar.

Þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar er framtíðarsýn um hvernig flugvöllurinn getur þróast til framtíðar í takti við farþegafjölda og þarfir samfélagsins.

Í Þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar eru framtíðarþróunarmöguleikar flugvallarins kortlagðir. Hún skapar þannig forsendur fyrir langtímahugsun og tryggir ábyrga nálgun þegar teknar eru ákvarðanir um hvert skref í þróun Keflavíkurflugvallar. Uppbygging Keflavíkurflugvallar verður framkvæmd í áföngum og ræðst umfang þeirra af því hver þróun farþegafjölda og fleiri þátta verður.

Þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar er gerð til 25 ára á grundvelli langtímaspár um þróun á farþegafjölda. Þróunaráætlunin var fyrst kynnt árið 2015, eftir samráð við nærsamfélagið, flugvallarsamfélagið á Keflavíkurflugvelli og aðra hagaðila. Gert er ráð fyrir að hún sé uppfærð á fimm ára fresti til að tryggja að þróun flugvallarins verði í sem bestum takti við þarfir samfélagsins og fjölda farþega auk þess að skapa vettvang fyrir reglulegt samráð við hagaðila. Núgildandi þróunaráætlun nær til ársins 2045, eftir uppfærslu árið 2022.

Skyggnst inn í framtíðina