Þróunaráætlun fyrir Keflavíkurflugvöll uppfærð

Frétt

Isavia hefur gefið út uppfærða þróunaráætlun fyrir Keflavíkurflugvöll, en þróunaráætlunin er uppfærð á fimm ára fresti.

Núgildandi þróunaráætlun gildir til ársins 2045. Hún byggir í meginatriðum á þróunaráætlun 2015 til 2040 en hefur verið uppfærð í samræmi við þá breytingar sem hafa orðið frá því að hún var gefin út.

Brynjar Vatnsdal, deildarstjóri þróunardeildar Isavia, segir ánægjulegt að búið sé að klára fyrstu uppfærslu á áætluninni. „Vegna þess að þróunaráætlunin nær yfir aldarfjórðung þarf hún að geta tekið breytingum í takt við breyttar forsendur, nýjar áherslur og með samfélaginu. Það er mikilvægt að geta aðlagað áætlunina með þessum hætti án þess að missa sjónar á langtímahugsuninni sem liggur henni að baki.“

Uppfærð áætlun gerir nú ráð fyrir nýju svæði fyrir þjónustu og vöruflutninga, bílastæðahúsum og sérstöku svæði fyrir geymslu, miðlun og framleiðslu sjálfbærra orkugjafa fyrir flugvélar. Þá er áætluninni nú skipt í tvo fasa, annars vegar fasa 1 sem gildir til ársins 2035 og byggir á núverandi flugbrautakerfi, og hins vegar fasa 2 sem gildir til ársins 2045 og gerir ráð fyrir að þriðja flugbrautin bætist við og þróun innviða henni tengdri.

„Ein af breytingunum sem felst í uppfærðri þróunaráætlun er hið svokallaða demantssvæði í norð-austurhorni flugvallarins. Þarna verður nýtt afgreiðslu- og þjónustusvæði fyrir fraktflutninga en kosturinn við þessa staðsetningu er nálægð hennar við uppbyggingu flugstöðvarinnar til austurs sem mun auka hagkvæmni fraktflutninga með farþegavélum og möguleika á samnýtingu leiðarkerfis farþega- og fraktflutninga,“ segir Brynjar.

Í Þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar eru framtíðarþróunarmöguleikar flugvallarins kortlagðir. Hún skapar þannig forsendur fyrir langtímahugsun og tryggir ábyrga nálgun þegar teknar eru ákvarðanir um hvert skref í þróun Keflavíkurflugvallar. Uppbygging Keflavíkurflugvallar verður framkvæmd í áföngum og ræðst umfang þeirra af því hver þróun farþegafjölda og fleiri þátta verður.

Þróunaráætlunin er gerð til 25 ára í senn á grundvelli langtímaspár um þróun á farþegafjölda. Þróunaráætlunin var fyrst gefin út árið 2015 eftir víðtækt samráð við nærsamfélagið, flugvallarsamfélagið á Keflavíkurflugvelli og aðra hagaðila. Hún er uppfærð á fimm ára fresti til að tryggja að þróun flugvallarins verði í sem bestum takti við þarfir samfélagsins og fjölda farþega auk þess að skapa vettvang fyrir reglulegt samráð við hagaðila. Núgildandi þróunaráætlun nær til ársins 2045, eftir uppfærslu árið 2022.