Ár framfara á KEF – Annáll 2025
Árið 2025 var viðburðaríkt á Keflavíkurflugvelli og hér er farið nánar yfir það helsta sem gerðist á vellinum.

Árið 2025 var viðburðaríkt á Keflavíkurflugvelli. Austurálman var formlega opnuð, stærsta stækkun Keflavíkurflugvallar frá upphafi, nýr leikvöllur fyrir yngstu farþegana var tekin í notkun, breytingar urðu á veitingasölu og verslunum og framkvæmdir standa yfir á aðkomusvæði Keflavíkurflugvallar. Hér á eftir verður farið nánar yfir það helsta sem gerðist á flugvellinum 2025.
Framkvæmdir og byggingar
Árið hófst af miklum krafti. Framkvæmdir hafa staðið yfir á Keflavíkurflugvelli undanfarin ár og engin breyting var á því í upphafi árs þegar allt var á fullu fyrir fyrirhugaða opnun annarrar hæðar austurálmu, stærstu stækkunar flugvallarins frá upphafi.
ORAT prófanir á nýrri álmu
Í febrúar, fyrir opnun annarrar hæðar austurálmu, fóru fram svokallaðar ORAT prufukeyrslur á flughlaði við bygginguna og stuttu síðar á landgöngum og rútuhliðum. Um er að ræða sérstaka rennslis- og viðbragðaprófun á ferlum. Markmið prófananna var að ganga úr skugga um að allir ferlar og búnaður væru tilbúnir fyrir opnun á austurálmu. Á flughlaðinu var það meðal annars leiðbeiningarbúnaður og tenging við landgöngubrýr sem voru prófuð, festingar á jörðu niðri sem og verkferlar við eldsneytisgjöf, fermingu og affermingu farangurs og notkun stiga og farþegabifreiða á svæðinu.

Brú milli gamla og nýja
Göngubrú var reist á milli norðurbyggingar flugstöðvarinnar og nýrrar austurálmu, í febrúar. Á fjórðu hæð austurálmu verður skrifstofurými fyrir starfsfólk Isavia og annarra fyrirtækja á flugvellinum. Þegar rýmið verður tekið í notkun mun göngubrúin tengja hæðina saman við skrifstofurýmið sem fyrir er í norðurbyggingu.
Austurálma formlega opnuð
Þann 21. mars var austurálman opnuð formlega en áður höfðu fyrstu farþegar farið í gegnum hana. Það var Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, sem opnaði álmuna. Nýja viðbyggingin stækkar flugstöðina um 30% og stórbætir rými og aðstöðu. Meðal þess sem bættist við voru fjórir nýir landgangar, tvö rútuhlið, leiksvæði fyrir börn og rúmgott biðsvæði.
„Austurálman, sem við opnum formlega í dag, er ekki aðeins enn eitt skrefið í uppbyggingu flugvallarins, heldur áþreifanleg staðfesting á framtíðarsýn um að hann verði alþjóðleg tengistöð milli Evrópu og Norður-Ameríku,“ sagði Daði Már Kristófersson við tilefnið.
Hann sagði alþjóðleg tengsl og samgöngur vera undirstöðu hagvaxtar og velsældar á Íslandi því hefði landið mikla hagsmuni af greiðum og öflugum samgöngum til og frá landinu.
Næstu áfangar hófust í uppbyggingu
Vinna hófst á árinu við hönnun fyrsta áfanga tengibyggingar milli norður- og suðurbyggingar flugstöðvarinnar. Byggingunni er ætlað að verða hið eiginlega „hjarta“ flugstöðvarinnar þegar hún verður tekin í notkun. Tengibyggingin er annar stóru áfanganna í uppbyggingu Keflavíkurflugvallar. Þessi nýja bygging ásamt austurálmunni stækkar flugstöðina um 70% frá því sem var. Ekki nóg með að tengibyggingin muni tengja saman upprunalegu flugstöðina og suðurbyggingu, heldur mun hún einnig stórbæta þjónustu fyrir tengifarþega á Keflavíkurflugvelli.
Framkvæmdir á fjórðu hæð
Í sumar var unnið hörðum höndum að því að klára fjórðu og efstu hæð austurálmunnar, en framkvæmdir við hana hófust árið 2024 og er nú stefnt að því að hæðin verði tekin í notkun snemma árs 2026. Um er að ræða 1.450 fermetra skrifstofurými, sem tengt hefur verið við skrifstofur í norðurbyggingu flugstöðvarinnar.

Nýr leikvöllur á Keflavíkurflugvelli
Í haust opnaði nýtt leiksvæði á Keflavíkurflugvelli. Leiksvæðið er innblásið af undraveröld Tulipop og er sett upp með það í huga að gera flugvöllinn að skemmtilegri stað fyrir yngstu gestina. Það er staðsett nálægt veitingasvæðinu Aðalstræti. Leiksvæðið er samstarfsverkefni Tulipop, hönnunarteymisins ÞYKJÓ og IRMA hönnunarstúdíós. Á svipuðu svæði eru einnig gagnvirk leiktæki, svokallað iWall frá finnska fyrirtækinu CSE Entertainment.
Breytingar í komusal
Í haust hófust framkvæmdir við og í komusal Keflavíkurflugvallar, svæðinu þar sem komufarþegar fara um á leið sinni úr töskusalnum. Markmiðið með breytingunum er að bæta flæði og auka þægindi fyrir flugvallargesti. Þjónusta bílaleiga og rútufyrirtækja færist til og verður saman á endurhönnuðu svæði auk þess sem þægindavöruverslun á komusvæðinu stækkar. Áætluð verklok eru á vormánuðum 2026.

Framkvæmdir á aðkomusvæði
Áframhaldandi framkvæmdir hafa staðið yfir á aðkomusvæði Keflavíkurflugvallar. Meðal annars er verið að bæta aðstöðu fyrir gangandi vegfarendur, þá sérstaklega gönguleiðir frá flugstöðvarbyggingunni og að ýmsum þjónustusvæðum. Verið er að yfirbyggja helstu göngustíga og snjóbræðslukerfi var lagt undir helstu gönguleiðir á svæðinu sem mun létta farþegum, starfsfólki og öðrum lífið á snjóþungum dögum.
Ný útkeyrsla af flugvallarsvæði
Í nóvember var tekinn í notkun nýr vegur við Keflavíkurflugvöll og var þannig hægt að aka nýja leið af flugvallarsvæðinu. Um er að ræða fyrsta áfanga svokallaðrar hringtengingar sem hefur þann tilgang að bæta bæði öryggi og flæði við flugstöðina í takti við vaxandi umsvif á vellinum. Hingað til hefur vegurinn fyrir framan flugstöðvarbygginguna endað við komufarþegasvæði, þar sem ekið er inn og út af P2 bílastæðinu, en nýi vegurinn liggur frá þeim stað og til norðausturs að Reykjanesbrautinni. Með þessari breytingu má draga úr umferð næst flugstöðinni og koma í veg fyrir þveranir ökutækja yfir akreinar. Þá mun öll þjónustuumferð, svo sem umferð vegna framkvæmda og flutninga með aðföng fara fram um aðra aðkomu að flugstöðinni. Með opnuninni lýkur fyrsta áfanga framkvæmda við hringtenginguna en þær hafa staðið yfir frá vorinu 2025.

Verslun og veitingar
Ýmsar breytingar áttu sér í verslunar- og veitingarekstri á árinu. Vorið 2025 opnuðu tvær nýjar verslanir á Keflavíkurflugvelli, Point og Icelandic Deli sælkeraverslun. Í Icelandic Deli er að finna úrval af íslenskum handverksostum, reyktu og þurrkuðu kjöti, hágæða súkkulaði, íslenskum kryddum og íslensku víni. Point er veitingasala þar sem boðið er upp á fjölbreytt úrval af ferðavörum, snarli, drykkjum, ferskum bakstri, pizzum og öðru góðgæti. Víða um flugstöðina er nú einnig að finna Point sjálfsala þar sem gestir flugvallarins geta nælt sér í allt það helsta úr verslunum Point, hratt og örugglega. Sjálfsalarnir hafa vakið mikla lukku enda er fjöldi farþega á hraðferð um flugvöllinn og getur það því létt undir með fólki að geta gripið bita hratt og örugglega. Þá er einnig Point verslun í komusal flugvallarins sem bæði nýtist ferðalöngum og öðrum sem um flugvöllinn fara. Þá tók nýr rekstraraðili, Heinemann, við rekstri fríhafnanna. Breytingar hafa verið gerðar á verslununum en frekari breytingar eru áformaðar, með þægindi farþega í huga. Aðalstræti tók breytingum á árinu. Nú eru þar staðirnir Trattoria Travolare og Yuzu auk þess sem nýr drykkjarstaður sem býður upp á áfenga og óáfenga drykki hefur bæst við. Á síðustu mánuðum ársins opnaði svo veitingastaðurinn Maikai aftur á flugvellinum á sömu stöðum og Bakað var áður. Maikai var áður starfræktur í flugstöðinni á árunum 2022–2023 í svokölluðu pop-up rými og hefur nú opnað aftur, með fjölbreyttari matseðil en áður.
Útivistarvörumerkið 66°Norður og Rammagerðin, gjafavöruverslun, eru á sínum stað á flugvellinum en opnuðu einnig nýjar verslanir á árinu, í flugstöðinni. Þær eru staðsettar við C-hliðin.
Áframhaldandi framkvæmdir verða á Keflavíkurflugvelli árið 2026 enda flugvöllurinn í stöðugri þróun.