Fundur um Keflavíkurflugvöll og nærsamfélagið
Árangursrík vinnustofa um starfsþróun og sjálfbærni á Keflavíkurflugvelli var haldin í gær, 18. apríl.
Vinnustofunni var ætlað að halda áfram samtali um hvernig Isavia og Keflavíkurflugvöllur sem vinnustaður geti komið á móts við þarfir fólks í nærsamfélaginu. Hvernig hægt er að hafa áhrif á að fleiri velji sér menntun eða starfsframa í störfum sem þar eru í boði, eða finni leið af t.d atvinnuleysisbótum inn á vinnustaðinn.
Fulltrúar mættu frá Ístak, Kadeco, Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum (MSS), Keili, Fjölbrautaskóla Suðurnesja (FSS), Samtökum iðnaðarins, Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ,Vinnumálastofnun, Virk og Rafiðnaðarsambandinu.
Síðasta vinnustofa var haldin 27. september í fyrra þar sem mikla jákvæðni mátti finna í hópnum,
Fjögur erindi voru haldin:
Theodóra Þorsteinsdóttir, Verkefnastjóri í Þróunardeild Isavia kynnti Þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar. Til að tryggja að fyrirhugaðar framkvæmdir við þróun Keflavíkurflugvallar séu í samræmi við stefnu Isavia þegar kemur að sjálfbærni þá var ákveðið að setja skýran ramma með sjálfbærniviðmiðum fyrir allar þær framkvæmdir sem framundan eru.
Í máli hennar kom fram að Isavia vill opna umræðuna á að bæta við kröfum um samfélagsábyrgð í útboðsferli, en í dag eru gerðar kröfur tengdar umhverfismálum.
Pálmi Freyr Randverson, framkvæmdastjóri Kadeco, kynnti nýja þróunaráætlun fyrir nærsvæði Keflavíkurflugvallar, sem miðar að því að nýta styrkleika flugvallarins og þau miklu tækifæri sem er að finna á Reykjanesinu sem drifkraft efnahagslegrar fjárfestingar, atvinnusköpunar og almennra lífsgæða á svæðinu og fyrir samfélagið í heild.
Þróunaráætlunin nær til ársins 2050 en fyrstu skrefin eru núþegar hafin, t.d. þróun grænna iðngarða við Helguvíkurhöfn, bættar almenningssamgöngur á milli flugvallar og höfuðborgar og uppbygging íbúða.
Bjarki Þór Iversen, mannauðstjóri Ístak, fjallaði um stöðuna hjá Ístaki almennt og á svæðinu nálægt Keflavíkurflugvelli, aðgerðir til að stuðla að nýliðun og aðgerðir í nærumhverfi suðurnesja.
Bjarki ræddi að það sé að verða alvarlegur skortur á starfsfólki í nokkrum greinum. Ístak vill geta ráðið fólk úr nærumhverfinu, en hröð aukning þýðir oft að grípa þurfi til erlends starfskrafts. Þar kemur þó áskorunin að skortur á húsnæði gerir starfsfólki sem kemur hingað utan frá eigi erfitt að finna sér húsaskjól.
Helsta áskorun Ístaks þegar það kemur að því að hafa áhrif á nærumhverfið, er að minni samningar og stuttur verktími gerir þeim erfitt að hafa raunveruleg áhrif. Stærri og lengri verkefni bjóða hinsvegar upp á aðrar aðstæður til að styðja við vinnumarkaðinn í nærumhverfinu.
Tia Patel frá Mace kynnti framtíðarstörf sem vænta má að fylgi uppbyggingu Keflavíkurflugvallar á næstu árum, en meðal þeirra eru störf fyrir rafvirkja, smiði, pípara, verkafólk, múrara, verk- og tæknifræðinga svo dæmi séu tekin.
Umræður mynduðust um hvað þurfi til þess að nærsamfélagið gæti mætt þessari starfsþróun. Tungumálakennsla var ofarlega í huga fundargesta, en margir telja þörf á sérstökum námskeiðum þar sem orðaforði tengdur hverju og einu starfi er kenndur svo aðilar hafi nauðsynlegan orðaforða til að sinna starfi sínu.
Tia ræddi einnig nýlega auglýst „graduate program“ þar sem nýútskrifuðum háskólanemum er boðið tækifæri að starfa í verkefnastjórnun hjá Mace og fá starfsþjálfun og stuðning fyrstu 2 árin í starfsferli sínum. Um er að ræða fulla ráðningu og greitt starf, að erlendri fyrirmynd.
Fundargestir tóku vel í slíka starfsþjálfun en velt var upp hvort slík þjálfun væri einnig gagnleg fyrir stöður sem ekki krefjast háskólaprófs t.d. iðnmennt eða vélastjórnun, og tækifæri fyrir yngra fólk sem hefur ekki áhuga á hefðbundnu námi en mundi hafa áhuga á starfsmenntun sem þessari.
Eftir kynningarnar voru um 40 mínútur nýttar í opnar umræður, en ákveðið var að setja á fót vinnuhóp sem getur komið oftar saman og komið með tillögur að því hvernig mæta megi áskorunum framtíðarinnar.
Nánari upplýsingar um þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar má finna hér.