Austurálma KEF formlega opnuð
Ný austurálma er formlega opnuð á Keflavíkurflugvelli. Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra opnaði álmuna en viðbyggingin stækkar flugstöðina um 30% og stórbætir aðstöðu á flugvellinum.

Ný austurálma er formlega opnuð á Keflavíkurflugvelli. Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra opnaði álmuna en viðbyggingin stækkar flugstöðina um 30% og stórbætir aðstöðu á flugvellinum.
„Austurálman, sem við opnum formlega í dag, er ekki aðeins enn eitt skrefið í uppbyggingu flugvallarins, heldur áþreifanleg staðfesting á framtíðarsýn um að hann verði alþjóðleg tengistöð milli Evrópu og Norður-Ameríku,“ sagði Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra þegar hann opnað nýja austurálmu Keflavíkurflugvallar með formlegum hætti. Hann sagði alþjóðleg tengsl og samgöngur vera undirstöðu hagvaxtar og velsældar á Íslandi því hefði landið mikla hagsmuni af greiðum og öflugum samgöngum til og frá landinu.
Austurálman, ný viðbygging við flugstöð Keflavíkurflugvallar, stækkar flugstöðina um 30% og stórbætir aðstöðu á flugvellinum. Með henni getur Keflavíkurflugvöllur stutt betur við vöxt flugfélaga og annarra viðskiptavina samhliða því að bæta upplifun gesta.
Þróun sem styrkir samkeppnishæfni landsins
Austurálman er fyrsta stóra skrefið í þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar sem miðar að því að efla flugvöllinn sem tengistöð og fjölga flugtengingum og styrkja þannig samkeppnishæfni Íslands.
„Uppbygging liðinna ára hefur að stórum hluta miðað að því að auka afkastagetu flugvallarins enda eftirspurn frá flugfélögunum okkar verið mikil á þá leið. Þetta hefur þýtt að fjölgun flugtenginga hefur aukist verulega sem skiptir miklu máli fyrir íslenskt samfélag.“

Sveinbjörn bætti við: „Þessi verkefni eru mikilvæg – ekki eingöngu til að liðka fyrir áframhaldandi vexti heldur einnig til að tryggja í sessi þann árangur sem þegar hefur náðst í fjölda komufarþega, fjölda tengifarþega og þar með fjölda flugtenginga sem skilar sér með beinum hætti inn í hagvöxtinn.“
Kristján Þór Júlíusson, stjórnarformaður Isavia, sagði í ræðu sinni að mikilvægt væri að halda áfram með þróun Keflavíkurflugvallar og nú væri unnið að forgangsröðun framkvæmda.
„Þetta er breytt forgangsröðun sem styður með beinum hætti við þá áherslu um að árið 2028 verði búið að byggja upp getu til að styðja við áætlaðan framtíðarvöxt flugfélaga sem velja Keflavíkurflugvöll sem tengistöð.“
Áframhaldandi þróun kallar á aukið hlutafé

Kristján Þór sagði að þrátt fyrir að rekstur Isavia gengi vel þá væri umfang þeirra framkvæmda sem nauðsynlegt væri að ráðast í á næstu árum af þeirri stærðargráðu að efnahagsreikningur félagsins myndi ekki standa undir þeim framkvæmdakostnaði sem þyrfti. „Það er óhjákvæmilegt að styrkja félagið með auknu hlutafé.“
Sveinbjörn tók í sama streng og sagði: „Það er mikilvægt að eiga opið samtal við eiganda fyrirsvar félagsins, fjármála- og efnahagsráðuneytið, um hvaða svigrúm er til staðar þegar kemur að fjármögnun næstu verkefna að hluta til með auknu hlutafé eða aðkomu alþjóðlegs minnihlutafjárfestis. Ég hef áður talað fyrir því hversu verðmætt það yrði fyrir Keflavíkurflugvöll að fá að borðinu fjárfesta sem eru sérhæfðir í að leggja fé til þróunar alþjóðaflugvalla vegna þeirrar þekkingar sem slíku fjármagni fylgir. Slík ráðstöfun mun alltaf styrkja samkeppnisstöðu okkur gagnvart erlendum flugvöllum.“
Um Austurálmu
Hér að neðan eru helstu upplýsingar um austurálmu og byggingu hennar.
ÁFANGAR OG ÁVINNINGUR
2021: Fjármála- og efnahagsráðherra hóf framkvæmdir með skóflustungu 1. júní.
2023: Nýr og rúmbetri komusalur með nýrri farangursmóttöku á jarðhæð og farangurskerfi í kjallara tekið í notkun í ágúst. Stórbætt aðstaða fyrir gesti til að taka á móti farangri og skilvirkari afhending farangurs.
2024: Nýtt svæði fyrir fríhafnarverslun á komusvæði tekið í notkun í mars. Nýtt veitingasvæði á brottfararsvæði með auknu úrvali veitingastaða tekið í notkun í nóvember.
2025: Prófanir hófust í febrúar og formleg opnun 20. mars. Fjórir nýir landgangar beint út í vél og tvö ný hlið til að þjónusta fjarstæði sem bætir upplifun gesta flugvallarins. Nýtt flughlað ásamt landgöngum bætir aðstöðu til þjónustu flugvélar. Rúmgott biðsvæði fyrir brottför.
ÁBYRG FRAMKVÆMD
- Heildarkostnaður er áætlaður 29,6 ma.kr. sem er í samræmi við ramma sem settur var í upphafi þegar tekið hefur tillit til verðlagsþróunar.
- Verkáætlun að mestu staðist þrátt fyrir áskoranir vegna heimsfaraldurs og truflanir á aðfangakeðjum vegna stríðs í Úkraínu.
- Austurálma er byggð í samræmi við sjálfbærnistefnu Isavia og er BREEAM vottuð. Það hefur lágmarkað umhverfisáhrif auk þess sem það mun stuðla að lægri rekstrarkostnaði á líftíma byggingarinnar.
HELSTU STÆRÐIR
25 þúsund m2 að flatarmáli sem þýðir um 30% stækkun flugstöðvarinnar, en til samburðar er tónlistarhúsið Harpa tæpir 30 þúsund m2 skv. Fasteignaskrá.
31 m að hæð, en til samanburðar eru turnar Akureyrarkirkju 26 m.
66 m að breidd, sem er álíka og breidd knattspyrnuvallar, og 124,5 m að lengd, sem er svipað og Bankastræti í Reykjavík.
22.600 m2 flughlað með eldsneytisáfyllingu sem jafnast á við rúmlega þrjá fótboltavelli.
Frá opnuninni
Hér fyrir neðan má sjá myndir frá opnuninni.


