Austurálman tekur á sig mynd
Austurálman er stærsta framkvæmd í sögu Isavia, að sögn Guðmundar Daða Rúnarssonar, framkvæmdastjóra viðskipta og þróunar hjá Isavia, en ítarleg umfjöllun um Austurálmuna birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 15. október síðastliðinn.
Guðmundur segir að Austurálman sé stærsta framkvæmdin, hvort sem miðað er við fjárhæðir eða fermetra. Til dæmis sé byggingin um fjögur þúsund fermetrum stærri en norðurbyggingin var upphaflega.
Upphafleg kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir að austurálman myndi kosta 21,8 milljarða króna á núvirði. Nú stefni í að endanlegur kostnaður verði 22-23 milljarðar.
Við austurálmuna er verið að steypa stigahús fyrir væntanlega landganga. Guðmundur Daði segir að frá hvoru stigahúsi verði tveir fingur út í tvær flugvélar. Með því sé hægt að lengja gönguleiðina út í vél og þannig hefja innritun fyrr og tryggja jafnara flæði farþega. Innritunin sé jafnan stærsti flöskuhálsinn á flugvöllum og því auki stigahúsin skilvirkni. Þá verði annaðhvort hægt að vera með tvær venjulegar vélar eða eina breiðþotu við stigahúsin sem sé einnig framför.
Þá vekur Guðmundur Daði athygli á því að nú standi yfir framkvæmdir fyrir 3,5 milljarða króna á flughlaðinu. Þar með talið við að byggja upp nýtt eldsneytiskerfi á (sjá mynd neðst á síðunni).
„Ástæðan fyrir því að vélum seinkar á Keflavíkurflugvelli er oft sú að þjónusta þarf margar vélar í einu og aka tankbílum með eldsneyti á milli þeirra. Með nýja kerfinu verður hægt að dæla eldsneyti beint úr lögnunum og í vélarnar,“ segir Guðmundur Daði í frétt Morgunblaðsins, sem lesa má hér.