Eins og þrír fótboltavellir

Framkvæmdum við Austurbyggingu Keflavíkurflugvallar miðar vel fram, en þegar hún verður tekin í gagnið fjölgar landgöngum í flugvélar um fjóra og til viðbótar koma tvö rútuhlið. Landgangarnir tengjast tveimur turnum, sem fengið hafa vinnuheitin Mars 1 og Mars 2, en eflaust gera ekki allir sér grein fyrir því hversu mikla vinnu þarf að fara í bara til að geta keyrt flugvélar að nýju byggingunni.

Jarð- og steypuvinna við nýju flughlöðin við turnana tvo var heilmikið verkefni, en þau eru alls um 20.000 fermetrar að stærð, sem samsvarar um þremur fótboltavöllum. Lengri tíma tók að steypa hlöðin vegna þess að veðrið lék ekki við okkur í þessum efnum í sumar frekar en aðra Íslendinga. Steypuvinnan öll við Austurbygginguna og flugvélastæðin samtals kallaði á um 20.000 rúmmetra af steypu og notuð voru 2.300 tonn af stáli í verkið.

Stækkun Keflavíkurflugvallar er ákvörðuð eftir langtímaspám um farþegafjölda og þarfir samfélagsins. Austurálman er lykilþáttur í framtíðarþróun flugvallarins. Fullkláruð verður hún stærri en upphaflega flugstöðvarbyggingin sem vígð var árið 1987 og mun m.a. hýsa nýtt farangursflokkunarkerfi og stærra veitinga- og biðsvæði auk nýju langanganna. Á komandi haustdögum eru það tveir nýjir landgangar og nýtt veitingasvæði sem verða tekin í notkun og eykst þar með umtalsvert pláss og þægindi fyrir farþega á leið í flug.

Til að átta sig á raunverulegum stærðum má hafa það bak við eyrað að Austurálman er 124,5 metra löng eða álíka og Bankastræti í Reykjavík, 66 metrar breið, sem er svipað og knattspyrnuvöllur og 31 metra há en til samanburðar er Akureyrarkikja 26 metrar á hæð.