Endurbætur á akbrautinni Kilo

Frá akbrautinni Kilo
Frétt

Endurbótum á Kilo, einni af meginakbrautunum í flugbrautakerfi Keflavíkurflugvallar, sem hófust í sumar er nú lokið. Um er að ræða einn hluta af endurbótum á brautakerfinu sem um leið er liður í stórframkvæmdum á vellinum sem kynntar voru fyrir nokkrum mánuðum og hrint var af stað í kjölfar hlutafjáraukningar ríkisins í Isavia.

Núverandi akbraut var fræst, gert var við hana og ráðist í yfirlögn á henni með tilheyrandi undirvinnu. Þessu til viðbótar var ljósabúnaðurinn á akbrautinni endurnýjaður. Efnið sem fræst var upp verður notað síðar í öðrum verkefnum á vellinum. Það er liður í hringrásarhagkerfinu.

Framkvæmdin hefur gengið vonum framar. Við réðumst í verkið í vor og vannst það vel þrátt fyrir að veðuraðstæður hafi ekki alltaf verið okkur hliðhollar. Endurnýjunin á Kilo var mikilvægt verkefni og mun hún bæta þjónustuna á vellinum.

Ingunn LoftsdóttirDeildarstjóri flugbrauta og vega hjá Isavia