Farþegum fjölgar og dreifast betur yfir árið
Tæplega 8,5 milljónir farþega munu ferðast um Keflavíkurflugvöll (KEF) á næsta ári samkvæmt farþegaspá flugvallarins fyrir árið 2024.
Tæplega 8,5 milljónir farþega munu ferðast um Keflavíkurflugvöll (KEF) á næsta ári samkvæmt farþegaspá flugvallarins fyrir árið 2024. Spáin gerir ráð fyrir að tæplega 2,4 milljónir erlendra ferðamanna komi til landsins um flugvöllinn. Gangi spáin eftir verður árið 2024 það þriðja stærsta í sögu Keflavíkurflugvallar og það stærsta í komu erlendra ferðamanna til Íslands.
„Við hlökkum til að taka á móti fleiri gestum á næsta ári. Við höfum fjárfest í þróun flugvallarins undanfarin ár og það er byrjað að skila sér í bættri aðstöðu fyrir farþega og starfsfólk,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia. „Spáin bendir einnig til þess að fjölgun farþega, sem og erlendra ferðamanna, verði hlutfallslega meiri en áður yfir vetrarmánuðina en sumarmánuðina. Það mun styðja við betri og jafnari nýtingu á flugvellinum yfir allt árið og á innviðum ferðaþjónustunnar.“
Farþegum fjölgar um 9,6% á milli ára
Farþegaspá KEF fyrir 2024 gerir ráð fyrir að 8,49 milljónir farþega fari um Keflavíkurflugvöll, sem er 9,6% aukning frá þeim 7,74 milljónum sem fara um flugvöllinn í ár. Aðeins tvisvar hafa farþegarnir verið fleiri, 8,8 milljónir 2017 og 9,8 milljónir 2018. Yfir sumarmánuðina munu 25 flugfélög fljúga áætlunarflug til 82 áfangastaða og 20 flugfélög til 69 áfangastaða yfir vetrarmánuðina.
Ef horft er til þeirra mánaða sem skilgreindir eru sem vetrarmánuðir á KEF, það er janúar, febrúar, mars, nóvember og desember, er gert ráð fyrir að farþegum fjölgi um 15,2% eða um 354 þúsund. Yfir sumarmánuðina, apríl til október, er gert ráð fyrir að farþegum fjölgi um 391 þúsund sem er 7,2% aukning á milli ára.
Spáin gerir ráð fyrir að hlutfall tengifarþega verði um 30% af heildar farþegafjölda á næsta ári en til samanburðar er það um 27% í ár. Það þýðir að hærra hlutfall af heildarfarþegafjölda mun nýta KEF sem tengistöð án þess að dvelja á Íslandi. Hlutfall tengifarþega fór mest árið 2018 þegar það var um 40%.
Erlendum ferðamönnum fjölgar mest yfir vetrarmánuðina
Samhliða farþegaspánni var einnig unnin spá um fjölda erlendra ferðamanna sem hingað sækja á næsta ári. Þar er gert ráð fyrir að erlendir ferðamenn verði tæplega 2,38 milljónir. Það eru um 60 þúsund fleiri en árið 2018 þegar þeir voru 2,32 milljónir, sem er mesti fjöldi erlendra ferðamanna fram til þessa. Í ár koma um 2,21 milljónir ferðamanna til landsins og gerir spáin því ráð fyrir 7,3% aukningu á milli ára. Um 93 þúsund fleiri ferðamenn munu koma yfir vetrarmánuðina á næsta ári samkvæmt spánni, sem 13,4% aukning á milli ára. Yfir sumarmánuðina er gert ráð fyrir 68 þúsund fleiri ferðamönnum sem er 4,5% aukning.
Stöðug þróun á Keflavíkurflugvelli
Keflavíkurflugvöllur er í stöðugri þróun sem miðar að því að bæta aðstöðu á flugvellinum til að tryggja viðskiptavinum betri þjónustu og gestum hans enn betri upplifun. Á þessu ári var fyrsti áfangi austurálmu, ný viðbygging við flugstöðina, tekinn í notkun með nýjum og rúmbetri töskusal og afkastameira farangurskerfi. Þá var tekin í notkun ný akbraut sem minnkar biðtíma flugvéla auk þess sem aðstaða fyrir komulandamæri fyrir farþega utan Schengen var bætt með nýrri viðbyggingu.
„Á síðari hluta næsta árs verður austurálman tekin að fullu í notkun, en framkvæmdir hófust um mitt ári 2021. Þá bætast við nýir landgangar auk rúmbetra svæðis fyrir verslanir og veitingastaði,“ segir Guðmundur Daði. „Þetta mun hjálpa okkur að taka enn betur á móti vaxandi farþegafjölda og tryggja starfsfólki og viðskiptafélögum okkar betri aðstöðu. Allt stuðlar þetta að betri þjónustu og upplifun fyrir farþega sem gerir flugvöllinn samkeppnishæfari.“
Um farþegaspána
Farþegaspá Keflavíkurflugvallar fyrir 2024 byggir á greiningum og mati á þáttum sem hafa áhrif á eftirspurn farþega eftir flugi til og frá́ flugvellinum. Spáin er unnin út frá upplýsingum um afgreiðslutíma sem flugfélög hafa tryggt sér og upplýsingum úr kerfum Keflavíkurflugvallar til viðbótar við fréttir af áformum flugfélaga.
Farþegatölur eru settar fram í þremur liðum og snúa að brottförum og komum farþega og svo tengifarþegum. Brottfararfarþegar eru þau sem fljúga frá flugvellinum eftir dvöl á Íslandi. Komufarþegar eru þau sem koma til dvalar á Íslandi. Tengifarþegar eru þau sem nýta KEF sem tengistöð, þ.e. koma með einu flugi til flugvallarins og skipta yfir í annað flug án þess að koma inn í landið og eru taldir bæði við komu og brottför.