Fleiri kostir fyrir ferðalanga

Frétt

Nú styttist í að fyrstu nýju veitingastaðirnir verði opnaðir á Keflavíkurflugvelli.

Fréttaflutningur um nýja staði á sér iðulega stað eftir að niðurstöður úr útboðum Isavia eru kynntar en þá er eftir vinna við að gera staðina klára. Nú í maí er hins vegar komið að því að fyrstu staðirnir verði opnaðir og því er tilvalið að fara yfir það sem er fram undan.

Veitingastaðurinn Elda opnar um miðjan maímánuð. Staðurinn verður í bistró stíl og þar verður boðið upp á heita og kalda rétti en einnig hraða þjónustu. Í júní opnar veitingastaðurinn Jómfrúin sem landsmönnum er þegar að góðu kunn og býður upp á ekta danskt smurbrauð. Um mitt sumar opnar svo fyrri Bakað staðurinn af tveimur. Þar verður boðið upp á ferskt brauðmeti, pizzur, salöt og úrval af heilsusamlegum djús-drykkjum. Seinni Bakað staðurinn verður opnaður í haust. Í aðdraganada jóla verður Loksins bar, sem ófáir þekkja, svo færður um set og opnaður að nýju sem Loksins café & bar.

Auk þessara staða hefur pizzastaðurinn Sbarro nú þegar bæst við veitingaflóruna á Keflavíkurflugvelli með svokallaðann pop-up stað. Margir þekkja staðinn en þar er boðið upp á tilbúnar pizzur, salöt og lasagna svo nokkuð sé nefnt. Þá eru fyrir í flugstöðinni fjölmargir góðir veitingastaðir. Mathús, Nord, Segafredo, Maikai og Loksins bar er alla að finna fljótlega eftir að komið er út úr fríhafnarversluninni eftir öryggisleit og svo eru það staðirnir Hjá Höllu og Kvikk Café sem eru staðsett á svæði D-hliða, eftir að gengið er út landganginn.

Þá styttist óðum í opnun nýrrar gleraugnaverslunar, Eyesland. Áætluð opnun er um miðjan maí en fram að því má næla sér í gleraugu í pop-up verslun Eyesland. Þá er fjölmargar aðrar freistingar að finna í þeim verslunum sem þegar eru í flugstöðinni. Fyrstar á vegi brottfararfarþegar eru Fríhöfnin, Elko, Rammagerðin, 66°Norður, Blue Lagoon og Penninn Eymundsson. Innar í flugstöðinni er skartgripaverslunin Jens auk þess sem nokkrar af framangreindum verslunum eru með útibú; Penninn Eymundsson, Rammagerðin, 66°Norður, Fríhöfnin og Mathús.

Eins og sjá má er úrval verslana og veitingastaða á flugvellinum og því tilvalið að gefa sér góðan tíma í flugstöðinni á áður en farið er flug.