Gjörbylting frá því sem við þekkjum
„Þetta verður gjörbylting á því rými sem er fyrir ferðafólk“, segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, í viðtali í Dagmálum, frétta- og dægurmálaþætti Morgunblaðsins, um fyrsta áfanga Austurálmu sem tekinn verður í notkun seint á þessu ári.
Austurálman er í raun fyrsta skrefið í uppbyggingu nýrrar tengibyggingar sem nú er í hönnun og stefnt er á að verði tekin í notkun 2029, samkvæmt Sveinbirni: „Sú framkvæmd er í raun og veru hugsuð til þess að við séum að búa til hjarta í flugstöðinni, þar sem fólk er að koma inn og fara í sínar tengingar og sín flug. Þá opnast gríðarlega skemmtileg tækifæri þegar kemur að verslunar- og veitingarekstri.“
Framkvæmdir standa nú yfir við austurálmu Keflavíkurflugvallar og verður hún tekin í notkun í áföngum. Fyrsti áfanginn á að vera tilbúinn í lok árs og felur í sér bætta aðstöðu fyrir farangursmóttöku í nýjum komusal. Í næsta áfanga, sem tekinn verður í gagnið á næstu tólf mánuðum þar á eftir, mun stækkun á veitingasvæði og komuverslun fríhafnarinnar bætast við, auk fjögurra nýrra landganga og tveggja rútuhliða. „Tösku-móttökusalurinn verður gjörbylting frá því sem við þekkjum núna og á næstu tólf mánuðum þar á eftir verður það sem er eftir af þeirri framkvæmd tekið í notkun.“
Fram kom í máli Sveinbjörns að með þeirri þróun sem nú á sér stað verði flugvöllurinn betur í stakk búinn til að taka við ferðafólki á næstu árum og sinna hlutverki sínu sem tengistöð á milli Evrópu og Ameríku, með bættu þjónustustigi og aðstöðu á flugvellinum. Sveinbjörn bendir á að áætlað sé að um 7,8 milljónir farþega fari um flugvöllinn á árinu sem yrði þá það þriðja stærsta frá upphafi hans. „Það eru bara árin 2017 og 2018 sem hafa verið stærri. Árið 2018 fóru 9,8 milljónir farþega um flugvöllinn. Það er bara þannig að þá var of mikið af farþegum að fara um flugvöllinn.“