Isavia styður við starfsendurhæfingu á Suðurnesjum

Frétt

Á síðustu vikum hefur fjölbreyttur hópur sérfræðinga Isavia heimsótt Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Samvinnu – starfsendurhæfingu. Tilgangur heimsóknanna er að veita innsýn í þau fjölbreyttu störf sem unnin eru á Keflavíkurflugvelli og við þróun hans. Áhersla er lögð á að eiga virkt samtal og efla einstaklinga til atvinnu.

Í vor fóru starfsmenn Isavia í heimsókn til MSS og Samvinnu – starfsendurhæfingar. Þar var haldin kynning fyrir um þrjátíu manns til að veita þeim innsýn í störf á flugvellinum og við þróun hans. Sérfræðingar Isavia og Mace fóru yfir starfsferil sinn og ræddu ákvarðanir sem leiddu þau til starfa hjá Isavia. Gagnlegt var að bera saman ólíka starfsferla og hvernig ólíkar ákvarðanir geta leitt aðila inn á sama vinnustaðinn.

Í lokin gafst svo tækifæri til spurninga og að fá ráðleggingar hjá sérfræðingum Isavia um störf, tækifæri og atvinnuferil.

Í sjálfbærnistefnu Isavia er lögð áhersla á markvissa vinnu í nærsamfélaginu, meðal annars með gagnkvæmri miðlun þekkingar og reynslu. Heimsóknin er hluti af því sem Isavia leggur til í starfsemi sinni til að auka samfélagslegt virði, meðal annars með samstarfi við stofnanir í nærsamfélaginu. Einnig með kynningu á störfum og á Isavia sem vinnustað og miðlun þekkingar sem verður til innan fyrirtækisins.