Landgangarnir fóru Krýsuvíkurleiðina
Landgangarnir við austurálmu voru settir upp í blíðskaparveðri á dögunum.
Þegar önnur hæð austurálmu verður tekin í notkun að fullu fjölgar landgöngum í flugvélar um fjóra, en landgangarnir tengjast tveimur turnum, sem fengið hafa vinnuheitin Mars 1 og Mars 2.
Landgangarnir, sem eru framleiddir af Kínverska framleiðandanum CIMC Tianda, komu til landsins fyrir nokkrum vikum og voru tengdir við turnana tvo í afar góðu veðri, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Ferð þeirra frá framleiðanda til Keflavíkurflugvallar tók lengri tíma og fleiri króka en búast mætti við.
Krókaleið um Góðrarvonarhöfða og Krýsuvík
Fyrst þurfti skipið sem flutti þá frá Shenzen í Kína að sigla fyrir Góðrarvonarhöfða í Suður-Afríku vegna þess að átökin við Rauðahaf hafa gert siglingar um Súezskurðinn hættulegri en ella. Eimskip flutti svo landgangana frá Rotterdam til Sundahafnar.
Vegna þyngdar, lengdar og hæðar-takmarkana var ekki hægt flytja brýrnar frá Sundahöfn í gegnum Reykjavík, heldur þurfti að keyra með þá til Þorlákshafnar og svo áfram Suðurstrandarveg. Takmarkanir á umferð í gegnum Grindavík urðu til þess að Krýsuvíkurvegurinn var farinn inn á Reykjanesbraut. ET flutningar sáu um flutninginn og fóru fjórar ferðir að kvöldi til, en fyrirtækið hefur sérhæft sig á sviði stórflutninga og lögregla fylgdi bílnum alla leiðina.
Með opnun landganganna, sem og tveggja rútuhliða í austurálmu eykst afkastageta flugvallarins og upplifun gesta verður enn betri fyrir vikið.
Landgangarnir og turnarnir mynda saman svokallað MARS kerfi, en það stendur fyrir Multiple Aircraft Ramp System og útskýrir vinnuheitin á turnunum. Þetta kerfi þýðir að hægt er að nýta turnana og landganana með sveigjanlegri hætti en eldri landganga og geta þeir jöfnum höndum þjónustað eina stærri vél eða tvær smærri.