Maikai og fleiri nýjungar á KEF

Frétt

Keflavíkurflugvöllur er í stöðugri þróun og hafa ýmsar breytingar átt sér stað í verslunar- og veitingaframboði á síðustu mánuðum. Markmiðið er að bæta upplifun farþega og fjölga spennandi valkostum bæði fyrir brottfarar- og komufarþega.

Ein helsta breytingin er enduropnun Maikai á brottfararsvæði flugvallarins, á sama stað og veitingastaðurinn Bakað var áður. Veitingastaðurinn Maikai var áður starfræktur í flugstöðinni á árunum 2022–2023 í svokölluðu pop-up rými og hefur nú aftur opnað með fjölbreyttari matseðli.

Þar er áfram að finna hinar vinsælu acai-skálar sem voru áður fáanlegar í flugstöðinni en auk þeirra býður staðurinn nú upp ferskar samlokur, chia-grauta, skyrskálar, vefjur og annað hollt og bragðgott snarl sem má grípa með í ferðalagið.

Í Aðalstræti í austurálmu flugvallarins hefur nýr drykkjarstaður verið opnaður á sama svæði og Zócaló var áður til húsa. Þar geta gestir keypt sér bæði áfenga og óáfenga drykki í notalegu umhverfi áður en haldið er í flug. Svæðið hefur tekið stakkaskiptum undanfarin misseri og í Aðalstræti má nú einnig finna veitingastaðina Trattoria Travolare og Yuzu.

Vinsæla útivistarvörumerkið 66°Norður og gjafaverslunin Rammagerðin hafa opnað sitt þriðja útibú í flugstöðinni, nú við C-hliðin á 2. hæð flugvallarins. Þar er lögð sérstök áhersla á útsöluvörur og sérvaldar vörur, auk þess sem Rammagerðin selur fatnað frá herrafataverslun Kormáks & Skjaldar. Því geta ferðalangar nú gert góð kaup á íslenskum hágæðafatnaði og íslenskri hönnun áður en þeir halda af landi brott.

Verslunarkeðjan Point stækkað viðveru sína í flugstöðinni og hefur opnað verslun í komusal flugvallarins. Þar er hægt að nálgast ýmsar ferðanauðsynjar, minjagripi, samlokur, bakkelsi, pylsur og aðra létta rétti. Auk þess verður mun meira sætapláss fyrir viðskiptavini en áður.

Þessar breytingar eru hluti af áframhaldandi uppbyggingu og endurnýjun á Keflavíkurflugvelli. Stefnt er að því að auka þjónustu, bæta aðstöðu og bjóða upp á fjölbreyttara úrval fyrir þá milljónir farþega sem fara um flugvöllinn á hverju ári.