Nauðsynlegur undirbúningur fyrir framtíðina

Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, var í ítarlegu viðtali við Túrista í vikunni og ræddi þar um framkvæmdir og uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli og í nærumhverfi hans.

„Framkvæmdunum sem nú er unnið að er ætlað að búa okkur undir afkastaaukningu á flugvellinum. Við byrjum á að stækka flugstöðina til austurs. Því verki lýkur undir lok næsta árs. Síðan verður byggður nýr tengigangur í suðurátt. Þessu fylgir því miður töluverð röskun en hún er nauðsynleg til að búa flugvöllinn fyrir framtíðina og þær stækkanir sem þá verða.“

Nýlega var kynnt þróunaráætlun fyrir Suðurnes og segist Guðmundur Daði vera mjög ánægður með þann ramma sem þar er settur fyrir þróun svæðisins. „Það er gríðarlega spennandi að byggja um Keflavíkurflugvöll og nærumhverfi hans. Það eru mikil samlegðartækifæri fólgin í þeirri vinnu sem Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, hefur verið að vinna í kringum flugvöllinn og niður í Helguvík – að þróa og byggja upp heildrænt þetta svæði allt. Þegar horft er til orkuskipta í fluginu er líklegt að þörf sé á innviðum dálítið fyrir utan flugvöllinn. Svo eru uppi hugmyndir um grængarða hér á svæðinu. Þá væntum við mikils af áformum um að aukið landeldi á fiski skili sér í meiri tekjum fyrir Keflavíkurflugvöll.“

Lesa má viðtalið í heild sinni hér.