Ný atvinnugrein að verða til
Þróunin í notkun þrívíddartækni við hönnun og byggingarstjórnun er svo mikil og hröð að til er að verða ný atvinnugrein innan byggingargeirans sem tengist bara tækni, búnaði og kerfum.

Þróunin í notkun þrívíddartækni við hönnun og byggingarstjórnun er svo mikil og hröð að til er að verða ný atvinnugrein innan byggingargeirans sem tengist bara tækni, búnaði og kerfum.
Isavia hefur frá árinu 2015 lagt mikla áherslu á að innleiða BIM aðferðafræðina við hönnun mannvirkja. BIM stendur fyrir Building information modeling, og snýst um að hönnunarvinnan fer fram í ítarlegu þrívíddarlíkani af þeirri byggingu sem verið er að reisa. Með því móti er hægt að minnka til mikilla muna líkur á mistökum.
Þrívíddarmódelið er nýtt allan tímann meðan á framkvæmdum stendur og er byggingin skönnuð reglulega og raunveruleg staða borin saman við módelið. Með því móti er hægt að tryggja að allt sé á réttum stað og gera þær lagfæringar sem gera þarf eins fljótt og unnt er. Eins getur sú staða komið upp að meðan á framkvæmdinni stendur komi í ljós betri leið til að leysa ákveðinn vanda og er þá þrívíddarmódelinu breytt í samræmi við það.
Afraksturinn er sá að framkvæmdin gengur betur, mistökum fækkar og að verkinu loknu er til þrívíddarlíkan af byggingunni eins og hún raunverulega er, sem hægt er að nýta við rekstur hennar til framtíðar. Isavia hefur náð miklum árangri á þessu sviði og er ítrekað leitað til sérfræðinga fyrirtækisins af öðrum fyrirtækjum eða stofnunum til að fræðast um þessa tækni og nálgun.
Jóhannes Bjarni Bjarnason, deildarstjóri hjá Isavia, segir tæknina afar spennandi. „Að mínu mati er eitt það mest heillandi í byggingargeiranum í dag er tæknin. Þróunin í þessum tæknigeira er svo gríðarleg að það er að vaxa upp ný atvinnugrein innan byggingargeirans, sem tengist bara tækni, búnaði og kerfum.“
Nánar má fræðast um BIM aðferðafræðina í meðfylgjandi myndbandi.