Ný ELKO verslun í komusal Keflavíkurflugvallar

Frétt

Raftækjaverslunin ELKO hefur opnað nýja verslun í komusal Keflavíkurflugvallar með betra aðgengi og auknu vöruúrvali. Verslunin er staðsett í nýjum töskusal flugvallarins, við útganginn úr verslun Fríhafnarinnar.

„Við hlökkum til að taka á móti ferðamönnum á nýju og stærra svæði í komusal Keflavíkurflugvallar. Aðgengi að nýju versluninni er mun betra en á fyrri stað og verslunin sjálf ein sú glæsilegasta,“ segir Óttar Örn Sigurbergsson, framkvæmdastjóri ELKO. „Nýja verslunin er í glænýju útliti en svipaðri hönnun og verslanir okkar í Skeifunni og á Akureyri. Viðskiptavinir hafa lengi óskað eftir auknu vöruúrvali og getum við nú loks svarað kallinu með meira plássi, betra aðgengi og fleiri vörum. Ný staðsetning gerir okkur kleift að bæta enn frekar þjónustu við okkar viðskiptavini.“

ELKO hefur um árabil starfrækt verslanir á flugvellinum, eina í brottfararsal flugvalllarins og eina í komusal, inni í verslun Fríhafnarinnar. Með nýju versluninni eykst ekki eingöngu möguleikinn á auknu vöruúrvali heldur verður verslunin sýnilegri, opnari og aðgengilegri fyrir viðskitpavini. Nýr töskusalur flugvallarins, þar sem verslunin er staðsett, er fyrsti áfanginn sem tekinn er í notkun í nýrri austurálmu flugstöðvarinnar og miðar að því að bæta aðstöðu fyrir farþega og upplifun þeirra.

„Við höfum átt í farsælu samstarfi við ELKO í fjölda ára, bæði í brottfararsal flugstöðvarinnar og í Fríhöfninni og það er því gleðilegt að hægt sé að bæta upplifun farþega frekar með nýrri verslun og auknu vöruúrvali. Keflavíkurflugvöllur er í stöðugri þróun og öll uppbygging miðar að því að bæta upplifun farþega með þjónustu sem hæfir ólíkum hópum farþega,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslunar og veitinga á Keflavíkurflugvelli.