Ný nálgun í stórframkvæmdum á Íslandi
Isavia er að skoða nýjar leiðir þegar kemur að því að koma öllu því í verk, sem lýst er í Þróunaráætlun fyrir flugvöllinn, og leitar viðbragða frá markaðsaðilum í þeim efnum. Framundan eru umfangsmikil verkefni sem munu gerbreyta flugvellinum því að ekki munu einungis fleiri farþegar geta farið um völlinn heldur er markmiðið að gera alla upplifun farþega betri, allt frá komu til brottfarar.
Næstu tólf árin er stefnt að því að fara í þrjár stórar framkvæmdir, tengibyggingu milli Norður- og Suðurbyggingar sem ber heitið SLN21 (um 22.000 m²), nýja Austurálmu (um 70.000 m²) og svo nýja Norðurbyggingu (um 30.000 m²). Áætlaður kostnaður við þessar framkvæmdir er um einn milljarður evra, eða um 150 milljarðar króna.
Við stórar framkvæmdir er hefðbundna leiðin sú að ljúka hönnun og bjóða svo byggingu verksins út til verktaka sem svo sjá um kaup á byggingarefni og öðrum aðföngum. Stærð verkefnisins sem Isavia stendur frammi fyrir býður hins vegar upp á að snúa þessari nálgun við og nýta svokallaða Smart Procurement aðferðafræði.
Isavia mun fyrst, með aðstoð ráðgjafa frá breska fyrirtækinu Mace, kaupa birgðakeðju. Þar með tryggir fyrirtækið sér birgða- og aðfangakeðju með röð langtímasamninga við birgja sem munu vinna náið með hönnuðum og koma þar með fyrr inn í ferlið en venja er. Markmiðið er að virkja sérþekkingu framleiðendanna í hönnunarferlinu og ná þannig meiri fyrirsjáanleika í kostnaði og afhendingartíma. Framleiðendur, sem samið verður við á þessum forsendum, munu einnig bera ábyrgð á uppsetningu á kerfum og íhlutum í samstarfi við íslenska verktaka þar sem það á við til að nýta sérþekkingu þeirra og mannafla. Þeir munu sjálfir velja sér samstarfsaðila en geta einnig nýtt sér þekkingu og þjónustu sérstaks stýriverktaka (e. Steering Contractor) sem hefur það hlutverk að samræma framkvæmdir allra framleiðenda.
Annar kostur við að greina á milli aðfangakeðjunnar annars vegar og byggingaframkvæmdanna hins vegar er sá að fleiri íslenskir verktakar munu geta boðið í þann hluta framkvæmdanna. Það væri ekki á allra færi fjárhagslega að taka að sér verkefni af þessari stærðargráðu ef það væri boðið út með hefðbundnum hætti. En með því að skilja aðfangakeðjuna frá framkvæmdunum sjálfum breytist það.