Ný og glæsileg gleraugnaverslun opnuð
Glæsileg gleraugnaverslun Eyesland hefur verið opnuð á Keflavíkurflugvelli.
Glæsileg gleraugnaverslun Eyesland hefur verið opnuð á Keflavíkurflugvelli.
Í versluninni eru seld mörg af eftirsóknarverðustu merkjunum á gleraugum og sólgeraugum í dag auk annarra nýrri og minna þekktra merkja sem þó þykja ekki gefa hinum neitt eftir í gæðum. Þá verður að sjálfsögðu hægt að kaupa vörur eins og linsur og linsuvökva auk hágæða augndropa sem geta komið sér sérstaklega vel á ferðalagi. Áhersla verslunarinnar er svo á þjónustuna og mun starfsfólk kappkosta við að aðstoða flugfarþega við val á gleraugum, glerjum eða öðru sem þau þurfa á að halda.
„Eyesland hefur ávallt lagt áherslu á framúrskarandi þjónustu og við munum halda því áfram í nýrri verslun okkar á Keflavíkurflugvelli. Við verðum með sjónmælingatæki á vellinum sem er nýtt á markaðnum og er með gervigreind sem býður upp á hraðar og nákvæmar sjónmælingar. Þannig að farþegar geta fengið sjónmælingar á staðnum á örskömmum tíma. Auk þess bjóðum við upp á heimsþekkt vörumerki eins og Ray Ban, Valentino, Balmain, Max Mara, Dita Lancier og Oakley, svo dæmi séu tekin. Við hlökkum til að taka á móti farþegum með vönduðum vörum á góðu verði," segir Sigrún Andersen, framkvæmdastjóri Eyesland.
Verslunin þykir sérstaklega vel heppnuð en það er teiknistofan Gláma Kím sem á heiðurinn af hönnun hennar. Verslunin er staðsett við hliðina á útganginum úr Fríhöfninni og því kjörið að skoða t.d. falleg sólgleraugu eða næla sér í lesgleraugu á leið í flug.