Nýr og rúmbetri töskusalur á Keflavíkurflugvelli

Fyrsti áfangi í nýrri austurálmu tekinn í notkun

Nýr og rúmbetri töskusalur beið þeirra farþega sem lentu á Keflavíkurflugvelli upp úr hádegi í dag. Töskusalurinn er fyrsti áfanginn sem tekinn er í notkun í nýrri austurálmu flugstöðvarinnar og miðar að því að bæta aðstöðu fyrir farþega og upplifun þeirra.

„Hér er hærra til lofts, víðara til veggja og færiböndin eru stærri og afkastameiri. Þannig getum við tekið betur á móti gestum Keflavíkurflugvallar, með betri aðstöðu til að bíða eftir farangrinum en vonandi einnig styttri bið,“ segir Maren Lind Másdóttir, forstöðumaður mannvirkja og innviða hjá Isavia. „Keflavíkurflugvöllur er í stöðugri þróun sem gengur út á að bæta aðstöðu og ferðaupplifun farþega og um leið að gera hann samkeppnishæfari. Á næstu árum stígum við fleiri skref í sömu átt.“

Maren Lind Másdóttir forstöðumaður mannvirkja og innviða hjá Isavia
Maren Lind Másdóttir forstöðumaður mannvirkja og innviða hjá Isavia

Fyrsti áfangi austurálmu

Nýi töskusalurinn á Keflavíkurflugvelli er á jarðhæð í nýrri viðbyggingu við flugstöðina, svokallaðri austurálmu. Í honum eru þrjú stærri og breiðari farangursmóttökubönd, en gert er ráð fyrir að síðar geti tvö bönd bæst við. Samhliða því verða farangursböndin í gamla töskusalnum tekin niður en á því svæði verður síðar opnuð ný og endurbætt fríhafnarverslun fyrir komufarþega.

Nýja viðbyggingin er á þremur hæðum auk kjallara og hófust framkvæmdir um mitt ár 2021. Í dag var einnig tekið í notkun nýtt og afkastameira farangursmóttökukerfi sem staðsett er í kjallara byggingarinnar. Áætlað er að framkvæmdum við bygginguna ljúki á síðari hluta næsta árs þegar meðal annars verður tekið í notkun stærra veitinga- og biðsvæði á annarri hæð og fjórir nýir landgangar.

Austurálma er rúmir 20 þúsund fermetrar að stærð, en til samanburðar er Laugardalshöll um 17 þúsund fermetrar. Austurálman er 124,5 m að lengd, 66 m á breidd og 31 m á hæð.

Með sjálfbærni að leiðarljósi

Við hönnun, efnisval og val á tækni í austurálmu er leitast við að lágmarka kolefnisspor, bæta orkunýtingu og auka hagkvæmni í rekstri í samræmi við stefnu Isavia þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi. Til að tryggja aðhald mun austurálma fá óháða BREEAM-vottun, sem er þekktasta alþjóðlega vottunarkerfið fyrir sjálfbærni framkvæmda.