Prófun á nýjum komulandamærum

Þriðjudaginn 17. janúar fór fram prufukeyrsla á nýju komulandamærunum á Stæði 6 og var markmiðið m.a. að ganga úr skugga um að allar merkingar séu nægilega skýrar og skiljanlegar.

Frétt

Þriðjudaginn 17. janúar fór fram prufukeyrsla á nýju komulandamærunum á Stæði 6. fór fram rennslis- og viðbragðaprófun á nýjum komulandamærum sem tekin verða í notkun síðar á þessu ári.

Sjálfboðaliðar frá Isavia og fleiri fyrirtækjum sem starfa á flugvellinum tóku sér hlutverk farþega og fóru í gegnum nýja komusvæðið. Markmiðið með prófuninni var m.a. að ganga úr skugga um að allar merkingar séu nægilega skýrar og skiljanlegar, en prófanir sem þessar eru mikilvægur hluti af ORAT aðferðafræðinni, sem innleidd hefur verið í stækkunarverkefninu á Keflavíkurflugvelli.

ORAT (Operational Readiness, Activation & Transition) er aðferð til að tryggja að í framkvæmdum, á borð við þær sem hafnar eru á Keflavíkurflugvelli, sé allt tilbúið á fyrirfram ákveðnum tíma. Þetta á við um byggingar, margskonar kerfi og ferla - og auðvitað starfsfólk. Viðskiptavinir okkar á borð við flugfélög gera áætlanir sínar langt fram í tímann. Þess vegna er mikilvægt að tengja þau og aðra hagaðila við verkefnin þannig að allt verði tilbúið á tilsettum tíma. Við ákváðum að innleiða ORAT í stækkunarverkefninu á Keflavíkurflugvelli og vonumst við til að sú reynsla sem til verður geti nýst í framkvæmdum fleiri aðila í framtíðinni íslensku samfélagi til hagsbóta.

Nýju komulandamræinn eru í tímabundinni viðbyggingu sem verður notuð þar til búið verður að koma upp nýrri og varanlegri aðstöðu í nýrri Tengibyggingu sem nú er í hönnun. Í samræmi við áherslu á endurnýtingu við þróun Keflavíkurflugvallar er byggingin hönnuð með þeim hætti að hægt verður að taka hana niður og nýta í annað þegar hlutverki hennar við landamæraeftirlit lýkur.