Samvinna allra skiptir máli
„Hlutafé Isavia var aukið í heimsfaraldrinum til þess að styðja við uppbyggingu og gera Keflavíkurflugvöll betur í stakk búinn til að takast á við endurheimtina sem skilaði sér í sumar á meðan flugvellir víða um heim voru í vandræðum,“ sagði Lilja Dögg Alferðsdóttir, ráðherra ferðamála á morgunfundi Isavia.
Morgunfundur Isavia um ábyrga uppbyggingu Keflavíkurflugvallar og farþegaspá fyrir árið 2023 var haldinn 1. desember síðastliðinn. Ferðamálaráðherra opnaði fundinn með ávarpi þar sem hún benti á að ein af lykilforsendum fyrir velgengi Íslands væru greiðar samgöngur við umheiminn. Þá kvað Lilja ríki sem heppin eru með landfræðilega legu sína vegna betur og þar væri meiri hagvöxt að finna. Þar af leiðandi væri það uppspretta auðlegðar hér á landi að sinna tengiflugi vel.
„Það er alveg ljóst að við erum í uppbyggingarfasa og þið getið treyst á ráðuneytið mitt og treyst á stjórnvöld að fara inn í þessa framtíð með ykkur. Það er hagur okkar allra að gera þetta á ábyrgan og sjálfbæran hátt,“ sagði Lilja Dögg og lagði áherslu á mikilvægi þess að styrkja innviði og umgjörð ferðaþjónustunnar í góðri samvinnu allra.
Á fundinum var farþegaspá Isavia kynnt og gerir hún ráð fyrir að 7.8 milljónir farþega fari um Keflavíkurflugvöll á næsta ári, sem er þriðji mesti fjöldi farþega á einu ári frá upphafi. Eins var gefin út ferðamannaspá Isavia sem gerir ráð fyrir því að 2.2 milljónir ferðamanna komi til Íslands á næsta ári. Það er næst mesti fjöldi ferðamanna sem hingað hafa komið á einu ári, en á metárinu 2018 komu 2.3 milljónir hingað til lands.