Sjálfbær Suðurnes á fundi Suðurnesjavettvangsins

Frétt

Fjölmenni var á fundinum Sjálfbær Suðurnes sem haldinn var af Suðurnesjavettvanginum á dögunum.

Á fundinum var rætt um sjálfbærni í framkvæmdum og rekstri sveitarfélaga, orkuskipti í flugi, eldsneyti framtíðarinnar og þá nýjung sem felst í sameiginlegu kolefnisbókhaldi. Suðurnesjavettvangurinn er samstarf sveitarfélaganna fjögurra á Suðurnesjum – þ.e. Grindavíkur, Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Voga, Isavia, Kadeco og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Meðal gesta á fundinum voru Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra, sem flutti erindi um leiðina að árangri í loftslagsmálum. Þar fór hann m.a. yfir þau markmið að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040 og óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Hann fór yfir áskoranirnar á veginum og hvernig væri verið að færa okkur nær þessum markmiðum með kortlagningu möguleikanna og aukinni samvinnu.

Hrönn Ingólfsdóttir, forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá Isavia, og Stefán Kári Sveinbjörnsson, verkefnastjóri hjá Isavia, fóru einnig yfir sjálfbærnivegferð félagsins. Þar var rætt um leiðina að kolefnisleysi í rekstri Isavia sem á að ná árið 2030. Farið var yfir kortlagningu á kolefnisspori Keflavíkurflugvallar sem hefur verið unnin, tæknilegar áskoranir fyrir mismunandi ný flugvélaeldsneyti vegna orkuskipta í flugi á Keflavíkurflugvelli og orkuþörf millilandaflugs sem áætlað er að verði orðin sem samsvarar að lágmarki 14,7-16,5 Svartsengis virkjunum árið 2050.

Ítarlegri frásögn af fundinum má finna á vefsíðu Isavia.