Sjálfbærni höfð að leiðarljósi í öllu sem við gerum

Frétt

Egill Björn Thorstensen, verkefnastjóri í stefnumótun og sjálfbærni hjá Isavia, ræddi sjálfbærnistefnu og sjálfbærniramma vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Keflavíkurflugvelli í viðtali við Fréttablaðið.

„Við erum með ítarleg markmið í sjálfbærnistefnu okkar og horfum þar meðal annars til loftslagsmála og auðlindanýtingar. Við erum með aðgerðaáætlun sem nær yfir árin 2022 til 2026 og auk þess erum við með skilgreind markmið og aðgerðir til ársins 2030,“ segir hann.

Í viðtalinu segir Egill Björn frá BREEAM vottun framkvæmda á Keflavíkurflugvelli. „Það er kerfi sem þekkt er á heimsvísu og gerir ýmsar kröfur varðandi efnisval, mengun, úrgangsmál, auðlindanýtingu og fleira. Við ætlum okkur að ná BREEAM Excellent-vottun sem er háleitt markmið fyrir þessa tegund bygginga. Við erum með reynda ráðgjafa til að aðstoða okkur við að ná þessu markmiði enda þarf til þess að uppfylla strangar kröfur,“ segir Egill Björn.

Við erum með aðgerðaáætlun sem nær yfir árin 2022 til 2026 og auk þess erum við með skilgreind markmið og aðgerðir til ársins 2030.

Egill Björn Thorstensen

„Næsta stóra verkefnið okkar er tengibygging milli norður- og suðurbyggingarinnar í Keflavík, þar sem landgangurinn er núna. Hann verður rifinn og önnur bygging byggð þar á milli sem verður rúmlega 20 þúsund fermetrar.

Þar verðum við með mun víðtækari og ítarlegri kröfur tengdar sjálfbærni. Í þessu verkefni munum við nálgast aðfangakeðjuna með nýjum hætti sem kallast Smart Procurement. Efnið kemur þá frá framleiðendum sem eru vel upplýstir um kröfurnar sem tengjast bæði BREEAM og sjálfbærnirammanum okkar, þannig getum við gert aðfangakeðjuna hagkvæmari og framkvæmdirnar sjálfbærari,“ segir Egill Björn og bendir á að á vefsíðunni kefplus.is sé hægt að lesa nánar um uppbygginguna á flugvallarsvæðinu.

„Sjálfbærni er hluti af daglegum rekstri okkar og höfð að leiðarljósi í öllu því sem félagið gerir. Það er þó alltaf hægt að gera betur og við höfum sett okkur það markmið að bæta okkur stöðugt í þeim efnum. Við nýtum hvert tækifæri til að gera íslenskan framkvæmdamarkað sjálfbærari, okkur öllum til farsældar. Því saman náum við árangri.“

Viðtalið í heild sinni má lesa hér.