Þetta snýst um gæði, ekki stækkun
„Við þurfum að auka gæðastigið á flugvellinum og ein af ástæðunum fyrir því að við þurfum að gera það er að til að tryggja að tengistöðin virki,“ sagði Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar á Keflavíkurflugvelli, í viðtali í Bítinu, morgunþætti Bylgjunnar, á dögunum. Hann sagði það eðli flugvalla að þróast og vaxa og Keflavíkurflugvöllur þurfi að taka þátt í því.
Guðmundur Daði sagði mikilvægt tryggja gæðastigið á flugvellinum. „Þetta þarf að vera auðvelt og það þarf að vera þægilegt. Það er styrkur Keflavíkurflugvallar. Þess vegna erum við núna að taka austurálmuna í notkun,“ sagði hann. Með austurálmu munu bætast við fjórir nýir landgangar þar sem farþegar geta gengið beint út í flugvél auk þess þar verður meira pláss fyrir gesti flugvallarins. Hann sagði mikilvægt að halda áfram á þessari vegferð. „Ef það er ekkert pláss, þú ert mikið í rútu og þá munu viðskiptavinir, með tímanum, ekki líta jákvæðum augum á Keflavík sem tengiflugvöll“.
Tengistöðin mikilvæg fyrir Ísland
Guðmundur Daði sagði að þegar rætt sé um þróun Keflavíkurflugvallar sé mikilvægt að horfa fyrst og fremst á að þar sé boðið upp á hátt gæðastig frekar en hversu mikla umferð eða fjölda farþega flugvöllurinn þolir. „Við ætlum að vera með gæða tengistöð sem gefur okkur sem eyríki svo ótrúlega margt. Við þurfum flugtengingar. Þær gefa okkur aðgang að viðskiptum, menningu, listum, útflutningi, menntun,“ sagði hann og bætti við að það geti verið hættulegt að horfa á flugvöllinn og segja að það sé búið að byggja nóg eða ekki nóg á Keflavíkurflugvelli.
Austurálma í fulla virkni næsta vor
„Við gerum ráð fyrir því að hún fari í prófanir núna í nóvember og desember, og verði svo komin í fulla virkni næsta vor,“ sagði Guðmundur Daði um austurálmu. Framkvæmdir við austurálmu hófust í sumarbyrjun 2021 og er hún tekin í notkun í áföngum. Um mitt ár 2023 var nýtt farangurskerfi í kjallara tekið í notkun sem ásamt nýjum komusal með meira rými og skilvirkari farangursafgreiðslu fyrir gesti flugvallarins. Í ár opnar nýtt veitingasvæði auk stærri komuverslunar Fríhafnarinnar. Þegar hún fer í fulla virkni munu bætast við fjórir nýir landgangar og stærra biðsvæði fyrir gesti flugvallarins.
Sumarið sýndi styrk tengistöðvarinnar
„Okkur finnst sumarið hafa gengið ljómandi vel,“ sagði Guðmundur Daði. Hann sagði að farþegafjöldinn hafi verið örlítið yfir spám fyrir júní, júlí og ágúst. „Ferðamenn eru örlítið færri en tengifarþegarnir á móti voru fleiri. Það sýnir styrkinn í þessu tengimódeli sem Keflavíkurflugvöllur er að reka. Það er hægt að bregðast við sveiflum á svona litlu landi eins og Íslandi,“ sagði Guðmundur Daði.
Erlendir ferðamenn verða um 2,2 milljónir í ár, sem er rétt undir metárinu 2018, og gestum flugvallarins mun fjölga um 6% yfir árið. Guðmundur Daði segir kollega sína erlendis fyllast öfund þegar þeir frétta af 6-8% árlegum vexti. Markmið þeirra séu 2-4% árlegur vöxtur.
Guðmundur Daði sagði ánægjulegt hversu vel sumarið hafi gengið, sérstaklega í ljósi þess hversu mikið hafi verið í gangi. „Það var mikið af framkvæmdum í gangi og góð samvinna allra á flugvellinum.“