Spennandi tímar framundan á Keflavíkurflugvelli
„Heimsfaraldurinn breytti ekki þörfinni á frekari uppbyggingu,“ sagði Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, á morgunverðarfundi í Hörpu. Hann segir spennandi tíma framundan á Keflavíkurflugvelli sem allt samfélagið muni njóta góðs af.
„Þörfin fyrir uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli var til staðar og er það enn“ sagði Guðmundur Daði. „Við sjáum og vitum að ef við ætlum að eiga möguleika á að vaxa með okkar stærstu viðskiptavinum, geta keppt við aðrar alþjóðaflugvelli og áfangastaði og veitt góða þjónustu þá þarf flugvöllurinn að halda áfram að þróast,“ benti Guðmundur Daði á.
Hann sagði það augljóst að heimsfaraldur hægði á uppbyggingu en nýtt hlutafé frá eigandanum gerði það kleift að halda þróun flugvallarins áfram. „Sem þýðir að í lok næsta árs getum við byrjað að taka nýja Austurálmu í notkun í áföngum fram til ársloka 2024.“
Á fundinum sýndi Guðmundur Daði meðfylgjandi mynd, sem sýnir þróun farþegafjölda og farþegaforsendur til næstu 10 ára samanborið við þróun fermetrafjölda í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. „Það gekk ágætlega að þróa stærð flugstöðvar í takti við farþegafjölda og þar með halda uppi þjónustustigi til ársins 2014. Það ár varð svo snögg og mikil aukning á fjölda farþega sem við gátum ekki haldið í við með uppbyggingu,“ sagði hann og bætti við: „Við höfum uppfært áætlanir okkar og framtíðarsýn og teljum að með réttri umgjörð, stuðningi allra hagaðila og ríkisins, bæði sem eiganda og stjórnvalds, að gríðarlega spennandi framtíð sé fyrirsjáanleg á flugvellinum sem allt samfélagið mun njóta góðs af.“
Frekari upplýsingar um ýmis verkefni í framkvæmd og hönnun á Keflavíkurflugvelli.