Starfsfræðsla i Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Frétt

Miðvikudaginn 18. október síðastliðinn fór starfsfólk Isavia og ráðgjafafyrirtækisins Mace í heimsókn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Markmið með heimsókninni var að kynna fyrir útskriftarnemum, þau fjölbreyttu störf sem eru almennt í boði á flugvellinum auk þess sem kynnt voru störf í tengslum við stækkun flugstöðvarinnar. Starfsfólk sem gegnir ólíkum störfum innan Isavia og Mace kynnti störf sín og reynslu, sögðu frá menntun sinni, áhugamálum og öðru sem hefur haft áhrif á starfsþróun þeirra.

Heimsóknin er liður í viðleitni Isavia og Mace til að að hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið, en starfsfólk fyrirtækjanna heimsækir reglulega menntastofnanir á svæðinu með kynningar eða verkefni sem gagnast nemendum.

Nemendur tóku vel á móti gestunum og spurðu þá spjörunum úr, sem er til marks um áhuga þeirra á þeirri vinnu sem fram fer á flugvellinum.

Það er afar verðmætt fyrir Isavia og flugvallarsamfélagið að starfsfólk gefi sinn tíma og orku í verkefni sem þessi. Það skiptir máli að íbúar suðurnesja, sem og hugsanlegir tilvonandi starfskraftar, séu upplýstir um það sem fram fer á flugvellinum og hvernig það hefur áhrif á samfélagið allt.