Starfskraftar framtíðarinnar heimsækja KEF
Nemendur frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja heimsóttu Keflavíkurflugvöll í liðnum mánuði í þeim tilgangi að kynnast betur fjölbreyttum störfum á KEF.
Þann 24. apríl kom hópur ungra nemenda úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja í heimsókn á flugvöllinn þar sem þau fengu innsýn inn í þau fjölbreyttu störf sem unnin eru á Keflavíkur flugvelli, þ.m.t. við bílastæðaþjónustu, farþegaþjónustu og öryggisleit. Þá gengu nemendurnir einnig um flugstöðina og fengu að skoða ólíkar starfsstöðvar og kynnast þróun og uppbyggingu flugvallarins. Ekki var annað að sjá en bæði nemendur og kennarar skólans hafi verið ánægð með heimsóknina og séu nú meðvitaðri um starfsemi KEF og þau ólíku tækifæri sem þar leynast .
Fram undan eru umfangsmikil verkefni sem munu gerbreyta ásýnd flugvallarins. Þessar breytingar munu ekki einungis gera fleiri farþegum kleift að fara um völlinn heldur er markmiðið að gera alla upplifun farþega betri, allt frá komu til brottfarar. Á flugvellinum er alltaf verið að leita að góðu fólki til að starfa og það er því ánægjulegt að bjóða flottum hópi framhaldsskólanema í heimsókn á KEF og kynna fyrir þeim tækifærin sem bjóðast á vellinum.
Heimsóknin er liður í viðleitni Isavia og Mace til að að hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið, en starfsfólk fyrirtækjanna heimsækir reglulega menntastofnanir á svæðinu með kynningar eða verkefni sem gagnast nemendum. Það er afar verðmætt fyrir Isavia og flugvallarsamfélagið að starfsfólk gefi tíma sinn og orku í verkefni sem þessi. Það skiptir máli að íbúar Suðurnesja, sem og hugsanlegir tilvonandi starfskraftar, séu upplýstir um það sem fram fer á flugvellinum og hvernig það hefur áhrif á samfélagið allt.