Stórt ár á KEF senn á enda
Árið sem er að líða var viðburðarríkt á Keflavíkurflugvelli (KEF). Nóg var við að vera í framkvæmdum á flugvellinum sem er í stöðugri þróun og áhersla hefur verið að bæta gæði og þjónustu flugvallarins með meira rými, fleiri landgöngum og fjölbreyttari þjónustu.
Undir lok ársins er opnun annarrar hæðar austurálmu rétt handan við hornið, nýtt veitingasvæði er komið í fullan rekstur ásamt fleiri nýjum veitingastöðum og verslunum sem hafa bæst við flóruna á flugvellinum. Auk þess voru auðvitað umhverfis- og samfélagsmál í forgrunni í bæði framkvæmdum og rekstri flugvallarins. Hér verður farið stuttlega yfir stóru áfangana á Keflavíkurflugvelli árið 2024.
Framkvæmdir og byggingar
Framkvæmdir gengu vel á Keflavíkurflugvelli árið 2024 og var þar góð samvinna allra ólíkra aðila lykillinn að velgengninni. Framkvæmdir við aðra hæð á nýrri Austurálmu eru þar efst á blaði.
Austurálman er lykilþáttur í framtíðarþróun flugvallarins. Fullkláruð verður hún stærri en upphaflega flugstöðvarbyggingin sem vígð var árið 1987 og hýsir hún m.a. nýtt farangursflokkunarkerfi sem opnaði árið 2023 og stærra veitinga- og biðsvæði auk nýrra landganga. Í fyrra var fyrsta hæð álmunnar tekin í notkun m.a. með nýjum töskusal sem stórbætti upplifun og aðgengi fyrir komufarþega í flugstöðinni.
Í ár hófust líka framkvæmdir við stækkun suðurbyggingar en með stækkun hennar skapast aukið rými fyrir farþega sem gerir biðina eftir ferðlaginu ánægjulegri.
Nýtt flughlað prófað á korti
Í apríl fór fram Desktop trial eða skrifborðsæfing fyrir nýtt flughlað við austurálmu flugstöðvarinnar. Verkefnið er nátengt austurálmuverkefninu en á nýja flughlaðinu verða m.a. fjögur ný flugstæði og snjóbræðslukerfi.
Svona æfing er mikilvægur þáttur í að búa starfsfólk Isavia og annarra fyrirtækja undir það að taka flughlaðið í gagnið. Þar sem framkvæmdinni er ekki lokið og heildstæð prófun með flugvélum er erfið í framkvæmd þá er skrifborðsæfing gott tól til að greina áður óþekkt atriði sem þarf að laga og fara í gegnum ferlana með endanotendum.
Fjöldi hagaðila, bæði innri og ytri, koma að verkefni sem þessu og er mikilvægt að allir þessir aðilar komi saman til fara í gegnum starfsemina sem verður á flughlaðinu. Fulltrúar frá öryggisstjórnun, flugturni, stjórnstöð, framkvæmdadeild, flugvallarþjónustu, farþegaflutningum, hönnuðum, Airport Associates og Icelandair tóku þátt.
Prófanir eins og þessar eru hluti af ORAT ferlinu sem er áhrifaríkt ferli til að styðja við farsæla innleiðingu á nýjum mannvirkjum og innviðum flugvallarinns. Með skipulagningu á prófunum fyrir opnun nýrra innviða tryggjum við mannvirkið sjálft sé tilbúið og að fólk, ferlar, kerfi og mannvirkið virki saman.
Framkvæmdir við stækkun suðurbyggingar hófust
Framkvæmdir við stækkun suðurbyggingar flugstöðvarinnar hófust fyrr á árinu og miðar vel. Með stækkun suðurbyggingar skapast aukið rými fyrir farþega sem gerir biðina eftir ferðlaginu ánægjulegri.
Suðurbyggingin stendur sunnan við gömlu flugstöðina sem nú er gjarnan kölluð norðurbyggingin. Byggingin var opnuð árið 2001 og stækkuð rúmum áratug síðar til að sinna auknum farþegafjölda og bæta upplifun farþega. Framkvæmdir við stækkun suðurbyggingar hófust í janúar 2024 og eru áætluð verklok á þessari 1.900 fermetra stækkun um mitt ár 2025. Breytingunum fylgir stórbætt aðstaða fyrir farþega, til að mynda með stærra biðrými, nýjum brottfararhliðum auk þess sem veitinga- og verslunarrými stækkar.
Framkvæmdum við austurálmu miðaði vel
Að mörgu þarf að huga þegar komið er að byggingu stórrar álmu á borð við austurálmu. Framkvæmdum við austurbyggingu Keflavíkurflugvallar miðaði vel fram í ár, en þegar hún verður tekin í gagnið fjölgar landgöngum í flugvélar um fjóra og til viðbótar koma tvö rútuhlið. Landgangarnir tengjast tveimur turnum, sem fengið hafa vinnuheitin Mars 1 og Mars 2, en eflaust gera ekki allir sér grein fyrir því hversu mikla vinnu þarf að fara í bara til að geta keyrt flugvélar að nýju byggingunni.
Jarð- og steypuvinna við nýju flughlöðin við turnana tvo var heilmikið verkefni í sumar, en þau eru alls um 20.000 fermetrar að stærð, sem samsvarar um þremur fótboltavöllum. Lengri tíma tók að steypa hlöðin vegna þess að veðrið lék ekki við okkur í þessum efnum í sumar frekar en aðra Íslendinga. Steypuvinnan öll við austurálmuna og flugvélastæðin samtals kallaði á um 20.000 rúmmetra af steypu og notuð voru 2.300 tonn af stáli í verkið.
Landgangarnir komu með krókaleiðum
Í haust tókust starfsmenn Keflavíkurflugvallar og aðrir sérfræðingar á við stórt verkefni þegar nýir landgangar við austurálmu komu til landsins. Þegar önnur hæð austurálmu verður tekin í notkun að fullu fjölgar landgöngum í flugvélar um fjóra, en landgangarnir tengjast tveimur turnum.
Landgangarnir, sem eru framleiddir af Kínverska framleiðandanum CIMC Tianda, höfðu ferðast langa leið þegar þeir komu til landsins.
Frá Shezen í Kína á Keflavíkurflugvöll
Fyrst þurfti skipið sem flutti þá frá Shenzen í Kína að sigla fyrir Góðrarvonarhöfða í Suður-Afríku vegna þess að átökin við Rauðahaf hafa gert siglingar um Súezskurðinn hættulegri en ella. Eimskip flutti svo landgangana frá Rotterdam til Sundahafnar. Vegna þyngdar, lengdar og hæðar-takmarkana var ekki hægt flytja brýrnar frá Sundahöfn í gegnum Reykjavík, heldur þurfti að keyra með þá til Þorlákshafnar og svo áfram Suðurstrandarveg. Takmarkanir á umferð í gegnum Grindavík urðu til þess að Krýsuvíkurvegurinn var farinn inn á Reykjanesbraut.
ET flutningar sáu um flutninginn og fóru fjórar ferðir að kvöldi til, en fyrirtækið hefur sérhæft sig á sviði stórflutninga og lögregla fylgdi bílnum alla leiðina. Með opnun landganganna, sem og tveggja rútuhliða í austurálmu eykst afkastageta flugvallarins og upplifun gesta verður enn betri fyrir vikið.
Landgangarnir og turnarnir mynda saman svokallað MARS kerfi, en það stendur fyrir Multiple Aircraft Ramp System og hafa þessir tveir fengið vinnuheitin MARS 1 og MARS 2. Þetta kerfi þýðir að hægt er að nýta turnana og landganana með sveigjanlegri hætti en eldri landganga og geta þeir jöfnum höndum þjónustað eina stærri vél eða tvær smærri.
Umhverfis og samfélagsmál
Fjölbreytt atvinnutækifæri kynnt fyrir ungmennum á KEF
Starfsfólk KEF tók virkan þátt í árlegri starfsgreinakynningu á Suðurnesjum og kynntu áhugaverð tækifæri á flugvellinum fyrir ungu fólki og nemendum á efsta stigi grunnskóla. Í ár mættu nítján starfsmenn flugvallarins til að ræða við unga fólkið, og kynntu ýmis atvinnutækifæri á flugvellinum, m.a. störf innan sviðs flugverndar, flugöryggis, öryggisleitar, verkfræðinga, mannauðsráðgjafa og farþegaaksturs svo fáein séu nefnd. Hver deild mætti með tæki og tól sem notuð eru í hverju starfi og fengu nemendur að máta sig við störfin og fá innsýn inn í hvernig vinnudagur hópsins lítur út.
Á flugvellinum er alltaf verið að leita að góðu fólki til að starfa og það er því ánægjulegt að kynna unga fólkinu fyrir öllum þeim fjölbreyttu tækifærum sem leynast á KEF. Yfir 100 starfsgreinar vítt og breitt úr atvinnulífinu voru kynntar nemendunum, sem komu úr 8. og 10. bekkjum allra grunnskóla Suðurnesjanna, auk fleira ungs fólks m.a. úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Starfsgreinakynningar sem þessar eru öflugt verkfæri til að hvetja ungt fólk af svæðinu til að tengjast og kynnast ýmsum tækifærum á vinnumarkaði. Markmiðið er að nemendurnir finni sér áhugaverð störf og fái aðstoð við að skilja hvaða hæfni og nám þau gætu þurft að sækja í framtíðinni.
Stórt ár í veitingum og verslunum á Keflavíkurflugvelli
Veitingasvæðið Aðalstræti opnaði við mikla lukku matgæðinga
Veitingasvæðið Aðalstræti opnaði í haust í brottfararsal Keflavíkurflugvallar. Alls eru þrír nýir veitingastaðir á veitingasvæðinu; hamborgarastaðurinn Yuzu, ítalski veitingastaðurinn La Trattoria og mexíkóski matstaðurinn Zócalo.
Með opnun þeirra hefur úrval veitinga á flugvellinum jókst úrval veitingastaða á flugvellinum enn frekar og ættu flest sem þangað sækja að geta fundið sér eitthvað við sitt hæfi.
Íslenska hönnunarstofan HAF Studio hannaði nýja veitingasvæðið í austurmálmu sem hefur fengið nafnið Aðalstræti. Áhersla var lögð á að skapa heildrænt rými sem heldur vel um gesti og stemningu eins og gerist best í miðborg Reykjavíkur.
Fataverslunin Húrra opnaði
Húrra Reykjavík, ein vinsælasta fataverslun landsins, opnaði nýja og glæsilega verslun í brottfararsal Keflavíkurflugvallar í sumar. Viðbótin vakti strax mikla lukku hjá gestum flugvallarins sem geta nú keypt fatnað og strigaskó frá þekktum og vinsælum vörumerkjum á borð við Arc‘teryx, Salomon, OpéraSPORT, Sporty & Rich, Norse Projects, Carhartt WIP, Stone Island og Birkenstock.
„Okkar markmið er að bjóða flugvallargestum upp á framúrskarandi vöruúrval frá heimsþekktum vörumerkjum, sem og ungum og spennandi. Allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi en við höfum sérvalið flottan fatnað og skó frá vinsælustu vörumerkjunum okkar. Við leggjum líka sérstaka áherslu á að bjóða upp á íslensk vörumerki á flugvellinum,“ sagði Sindri Snær Jensson, annar eigenda Húrra í tilefni opnunarinnar.
„Það er mikið gleðiefni fyrir okkur, í tilefni af 10 ára afmæli Húrra, að opna verslun á fjölfarnasta stað landsins. Við leggjum mikla áherslu á persónulega þjónustu og hlökkum til að aðstoða gesti við að finna réttu flíkina fyrir ferðalagið.“
Loksins sneri aftur sem bar & café
Loksins bar var rekinn á Keflavíkurflugvelli um árabil og opnar nú aftur í breyttri mynd. Auk þess að bjóða upp á fjölbreytt úrval drykkja líkt og gestir flugvallarins hafa notið síðustu ár býður Loksins Café & bar upp á vel útfærðan matseðil.
Á boðstólnum er ýmist góðgæti á borð við nýbakað, handgert bakkelsi, morgunverðarskálar, salöt, ferskt ciabatta og aðra girnilega heita rétti svo öll ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Matreiðslumaðurinn Semjon Karopka, yfirkokkur á veitingastöðunum Pasta í Borg 29 mathöll og Hipstur í Gróðurhúsinu í Hveragerði, hefur tekið við stöðu yfirkokks Loksins Café & bar en hann hefur margra ára reynslu úr veitingageiranum á Íslandi.