Veitingastaðurinn Elda opnaður á Keflavíkurflugvelli

Frétt

Það er gleðiefni að tilkynna að veitingastaðurinn Elda hefur verið opnaður á Keflavíkurflugvelli en með honum fjölgar enn valmöguleikum stækkandi hóps farþega sem fer um flugvöllinn.

Á Elda er áhersla lögð á gæði og gott hráefni. Maturinn er ferskur og fjölbreyttir kostir verða í boði fyrir alla; trufflu hamborgari, kjötsúpa, bleikjusalat og fiskur og franskar, svo dæmi séu tekin. Á morgnana verða í boði léttari kostir; Egg Benedikt, pönnukökur með sírópi og Avocado Toast. Svo er Ísey skyrbar inni á staðnum sem verður alltaf opinn með ferskar skálar. Og fyrir þau sem eru á hraðferð verður alltaf gott úrval tilbúinna rétta til að grípa með sér.

Hönnunin á Elda er einstaklega falleg, með vísun í íslenska arfleifð og náttúru – og þægindi farþega í fyrirrúmi.

„Við erum virkilega stolt af matnum á Elda sem er gerður úr gæðahráefni. Þetta eru mikið til klassískir réttir en með íslensku hráefni. Svo leggjum við auðvitað mikið upp úr því að koma til móts við fjölbreytta hópa, við verðum t.d. með frábæra hraðþjónustu fyrir þau sem liggur á. Þá verðum við með flotta grænmetis- og veganrétti og virkilega metnaðarfullan barnamatseðil. Við hlökkum mjög til að kynna Elda fyrir flugvallargestum“, segir Jón Haukur Baldvinsson, rekstrarstjóri SSP á Íslandi.

Elda er í eigu SSP, alþjóðlegs fyrirtækis sem sérhæfir sig í rekstri veitingastaða á flugvöllum og rekur yfir 2.500 staði víða um heim.

„Við erum mjög ánægð að hafa fengið SSP til liðs við okkur á Keflavíkurflugvelli. Elda er frábær viðbót við veitingaflóruna hjá okkur. Stór hluti farþega hefur verið að kalla eftir meiri gæðum og Elda svarar því kalli vel. Matseðillinn er mjög girnilegur og því vert að mæta snemma í flug og gefa sér góðan tíma.“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslunar og veitinga hjá Isavia.

Staðurinn hefur þegar verið opnaður og er staðsettur beint á móti útganginum úr Fríhöfninni.

Isavia óskar Elda og SSP til hamingju með opnunina og hlakkar til samstarfsins á Keflavíkurflugvelli.