Grétar Már Garðarsson fer yfir árið í Bítinu á Bylgjunni
Fjölgun flugtenginga á Keflavíkurflugvelli, brotthvarf Play og nýbirt farþegaspá var meðal þess sem rætt var.

Markviss vinna forsenda aukinna flugtenginga
Fjölgun flugtenginga á Keflavíkurflugvelli, brotthvarf Play og nýbirt farþegaspá var meðal þess sem rætt var í Bítinu á Bylgjunni á dögunum, þegar Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og markaðsmála hjá Isavia mætti þangað til að fara yfir árið.
„Það er alltaf gaman að gera upp árin sem líða og sjá hvað kemur upp úr pokanum,“ sagði Grétar.
Tækifæri til staðar
Hvernig gengur vinnan við að tryggja framboð á flugi, fá ný flugfélög og nýjar tengingar? „Hvernig virkar þetta? Takið þið bara upp símann og segið „hey við erum hérna á íslandi, viljið þið ekki fljúga hingað?“ Þið þurfið náttúrulega einhvern veginn að selja hugmyndina?“ sagði þáttastjórnandi.
„Þetta er búið að þróast alveg gríðarlega. Ég byrjaði árið 2012. Árin 2007 og 2008 þá þurfti bara að sýna hvar Ísland væri á korti en auðvitað hjálpaði Eyjafjallajökull mikið þarna 2010,“ svaraði Grétar og hélt áfram: „En þetta virkar í rauninni þannig að við erum að hittast á ráðstefnum út um allan heim tvisvar til fjórum sinnum á ári. Svo erum við að fara í heimsóknir til flugfélaga, í þeirra höfuðstöðvar og svo samskipti, tölvupóstar, símtöl og fundir.“
Grétar sagði þetta vera stöðuga vinnu allt árið um kring. Sú vinna hefði gengið betur að undanförnu heldur en búist hafði verið við: „Það er búið að ganga ótrúlega vel og við erum búin að sjá til dæmis aukningu hjá Bandaríkjunum, United Airlines er að bæta við áfangastaði, Delta er að bæta við tíðni á Detroit sem dæmi. Svo erum við líka að sjá SAS og Finnair aukast um 30% á næsta ári,“ sagði Grétar en benti á að hlutirnir geti breyst hratt.
Frekari tækifæri eru til staðar, þá helst í Norður Ameríku og Asíu. Verið er að vinna í því að koma á beinu flugi á milli Íslands og Kína. Þar er ekkert fast í hendi en verkefnið í stöðugri vinnslu.
Tekur tíma að ná sama fjölda en markviss vinna skilar árangri
Í viðtalinu kom fram hjá Grétari að brotthvarf Play í lok september hafi haft mikil áhrif á framboð á flugi um Keflavíkurflugvöll en með markvissum aðgerðum hafi tekist að lágmarka þau áhrif. Hann sagði að um leið og fréttir hafi borist af því að Play hafi hætt rekstri hafi sú vinna hafist.
Play var með um 900 þúsund farþega á Keflavíkurflugvelli árið 2025 þar til það hætti rekstri en farþegaspá KEF fyrir 2026 gerir ráð fyrir að farþegum muni í heild fækka um 600 þúsund á milli ára. Grétar sagði að það myndi taka einhvern tíma að ná aftur sama fjölda farþega.
„Við hjá Isavia erum búin að vinna mikið markaðsstarf og við vinnum mjög náið með öllum flugfélögum. Það er okkar hlutverk að reyna að sækja ný flugfélög, nýja áfangastaði og fleiri farþega. Það gekk mjög vel“ sagði Grétar og benti á að ef horft væri á spá næsta árs væru önnur flugfélög að vaxa og þannig þegar byrjuð að fylla upp í skarð Play, sem væri mjög gott.
„Það eru ákveðin skammtíma áhrif sem verða, vissulega. Við erum með langtímaspá sem við erum að vinna eftir og þá eru aðrir þættir sem spila inn í þetta líka, til dæmis að Icelandair er ekki að bæta við flotann sinn á næstu árum, það hefur gríðarlega áhrif, enda er það mikilvægasti viðskiptavinurinn okkar,“ sagði Grétar sem gerir ráð fyrir að árin 2027-2028 verði farþegafjöldi kominn á sama stað og árið 2024. „Svona miðað við þann vöxt sem við sjáum í dag. En þetta er rosa fljótt að breytast.“
Það má greinilega heyra á Grétari að hann hefur trú á vegferðinni og telur Isavia í stakk búið til að mæta frekari eftirspurn í náinni framtíð: „Það er alveg klárlega ennþá pláss á flugvellinum, ennþá pláss á ákveðnum tímum fyrir þessi, annað hvort nýju flugfélög eða núverandi að bæta við sig.“

