
Rútu- og leigubílaaðstaða
Auknum fjölda flugfarþega fylgir meiri umferð um aðkomusvæði Keflavíkurflugvallar. Stærra og aðgengilegra svæði fyrir rútur sem og leigubíla eru því hluti af uppbyggingu aðkomusvæðis flugvallarins enda ferðast stór hluti ferðamanna með þessum fararkostum.
Rútuaðstaða
Rútur á Keflavíkurflugvelli skiptast í tvo flokka; rútur í föstum áætlanaferðum milli flugvallar og höfuðborgarsvæðis og svo aðrar rútur. Þessir tveir flokkar sækja farþega á tvo mismunandi staði. Fyrri flokkurinn leggur á svokölluðum innri stæðum, nálægt flugstöð, en þær rútur þjóna gestum flugvallarins með áætlunarferðum á öllum tímum sólarhringsins. Seinni flokkurinn, sem eru allar aðrar rútur og og áætlunarbílar og mun fjölmennari flokkur, leggja á svokölluðum ytri rútustæðum sem staðsett eru fjær flugstöðinni.
Við tilfærslu ytri rútustæða fjölgar stæðum fyrir þær og svæði fyrir farþega stækkar. Fjarlægð frá komusal flugstöðvarbyggingarinnar að ytri rútustæðum verður um 300 metrar en byggt verður yfir gönguleiðirnar frá flugstöðvarbyggingunni og að rútustæðum. Með tilfærslunni eykst skilvirkni, afköst við byrðingu og þægindi fyrir farþega enda fæast með breytingunni mun stærra svæði fyrir rúturnar. Áætlað er að framkvæmdum ljúki að fullu árið 2026.
Framkvæmdir við ný rútustæði fyrir áætlanaferðir eru langt komnar. Samtals verða stæðin fjögur talsins. Fyrstu stæðin hafa þegar verið tekin í notkun en eru áætluð verklok á fyrri hluta árs 2025.
Leigubílaaðstaða
Leigubílastæðum við flugvöllinn fjölgar úr 24 í 30 stæði. Þá verða einnig útbúin fleiri biðstæði en það eru bílastæði fyrir leigubíla til að nota þangað til pláss í stæðunum upp við flugstöðvarbygginguna losnar.
Með fjölgun stæðanna hliðrast þau lítillega til austur frá því sem nú er. Tilfærslan er tilkomin vegna uppbyggingar á flugstöðinni en bygging Austurálmu hefur tímabundin áhrif á skipulag, aðkomu og bílastæði við flugstöðina, en með henni stækkar jafnframt svæði fyrir leigubíla.
Áætluð verklok eru árið 2025.
Uppbygging á aðkomusvæði

