Í vinnslu

Rútu- og leigubílaaðstaða

Auknum fjölda flugfarþega fylgir aukinn fjöldi sem um aðkomusvæðið fer. Stærra og aðgengilegra svæði fyrir rútur sem og leigubílastæði eru því hluti af uppbyggingu aðkomusvæðis Keflavíkurflugvallar enda ferðast stór hluti ferðamanna þessum farkostum. Með frekari uppbyggingu á aðkomusvæðinu mun aðstaða fyrir rútur og leigubíla færast frá því sem nú er.

Rútuaðstaða

Rútur sem koma á aðkomusvæði Keflavíkurflugvallar skiptast í tvo flokka; rútur í föstum áætlanaferðum milli flugvallar og höfuðborgarsvæðis og svo aðrar rútur. Þessar rútur sækja farþega á tvo mismunandi staði. Fyrri flokkurinn leggur á svokölluðum innri stæðum, nálægt flugstöð. Þau fyrirtæki eru með sérleyfissamning við flugvallaryfirvöld og þjóna gestum flugvallarins á öllum tímum sólarhringsins með flutningi farþega milli höfuðborgarsvæðisins og flugvallarins á þeim tímum sem flugtök og lendingar eiga sér stað. Seinni flokkurinn, sem eru allar aðrar rútur og áætlunarbílar, leggja á svokölluðum ytri rútustæðum sem staðsett eru fjær flugstöðinni.

Uppbygging Austurálmu hefur tímabundin áhrif á skipulag, aðkomu og bílastæði við flugstöðina, þ.m.t. rútustæðin. Eftir tilfærslu á ytri rútustæðum, sem eru áætluð árið 2024, verður fjarlægðin frá komusal flugstöðvar-byggingarinnar um 300 metrar. Yfirbyggingu gönguleiða sem til stendur að reisa norðan við núverandi flugstöðvarbyggingu fylgir margskonar ávinningur og verða gönguleiðir að rútustæðum þ.m.t. jafnframt betur merktar og öryggi þeirra bætt. Aðkoma farþega verður því öruggari og þægilegri og afköst við byrðingu rúta aukast þar sem rútustæðum mun fjölga. Slíkt eykur skilvirkni og þægindi farþega.

Eftir tilfærslurnar, sem áætlaðar eru 2024, mun bílastæðum fyrir leigubílstjóra sem sækja viðskiptavini úr flugstöð fjölga sem og biðstæðum fyrir leigubíla.

Leigubílaaðstaða

Leigubílastæðum fyrir leigubíla sem sækja viðskiptavini upp við flugvöllinn mun fjölga úr 24 í 30 stæði auk þess sem fleiri biðstæði verða útbúin en það eru bílastæði fyrir leigubíla til að nota þangað til pláss í stæðunum upp við flugstöðvarbygginguna losnar.

Með fjölgun stæðanna hliðrast þau lítillega til austur frá því sem nú er. Tilfærslan er einnig tilkomin vegna uppbyggingar á flugstöðinni en uppbygging Austurálmu hefur tímabundin áhrif á skipulag, aðkomu og bílastæði við flugstöðina, en með henni stækkar jafnframt svæði fyrir leigubíla.

Áætluð verklok á fjölgun leigubílastæða upp við flugstöðvarbygginguna og útbúnum biðstæðum eru árið 2024.

Uppbygging á aðkomusvæði