Austurálma mun taka vel á móti farþegum í lok 2023

Frétt

Nýr töskumóttökusalur verður tekinn í notkun í lok nærsta árs en hann er hluti af Austurálmunni sem nú er í byggingu á Keflavíkurflugvelli. „Töskumóttöku böndin þrefaldast í stærð og afköstum auk þess sem biðsvæðið tvöfaldast við komuna til landsins þannig að þetta verður algjör bylting fyrir farþega,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia.

Austurálman mun opna í áföngum, fyrst með nýrri töskumóttöku á næsta ári og svo í skrefum fram að lokum 2024. „Töskumóttökusalurinn mun taka vel á móti farþegum þegar þeir koma til landsins, hvort sem það séu íbúar að snúa heim eða ferðamenn að koma til landsins,“ segir Guðmundur Daði.

Í síðari áföngum mun koma nýtt veitinga- og biðsvæði, sex ný hlið fyrir farþega sem og komuverslun fríhafnarinnar verður stækkuð. „Austurálman og sú bætta aðstaða sem henni fylgir mun gjörbreyta þjónustuupplifun á flugvellinum,“ segir hann.

Stærðin er 90% af Hörpu - húsinu sem við erum í núna og kjallari húsins er á stærð við löglegan fótboltavöll,

Guðmundur Daði RúnarssonFramkvæmdarstjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia

Guðmundur Daði fjallaði um ábyrga uppbyggingu Keflavíkurflugvallar nýja Austurálmu á morgunverðarfundi Isavia í Hörpu. „Austurálma er stærsta einstaka framkvæmdin sem er í gangi. Þetta er umfangsmikil framkvæmd sem nú þegar setur sterkan svip á umhverfi flugvallarins á byggingartíma. Mikið er lagt upp úr því að taka á móti farþegum með hlýleika og skýra skírskotun til Íslands enda fyrsti viðkomustaður ferðamanna til Íslands og upphafið að nýrri nálgun okkar í hönnun bygginga og umhverfis Keflavíkurflugvallar“.

Frekari upplýsingar um Austurálmuna.