
Austurálma
Ný austurálma hefur risið við Keflavíkurflugvöll sem stórbætir bæði aðkomu komufarþega og svæði fyrir brottfararfarþega með nýju biðsvæði og fleiri brottfararhliðum. Álman stækkar flugstöðina um 30% og hafa fyrsta og önnur hæð álmunnar opnað.
Framkvæmdir við austurálmu hófust í sumarbyrjun 2021 þegar fyrsta skóflustunga var tekin af þáverandi fjármálaráðherra. Jarðvinna gekk vel og var á stuttum tíma búið að grafa út fyrir 49.000 rúmmetra holu sem varð á endanum 55.000 rúmmetrar og 7,5 metrar að dýpt.
Nýr töskusalur og betri farangursmóttaka
Álman er tekin í notkun í áföngum en fyrsti stóri áfanginn í augum farþega á Keflavíkurflugvelli var líklega um mitt ár 2023 þegar fyrsta hæð álmunnar opnaði. Fyrsta hæðin hýsir meðal annars nýjan og rúmbetri komusal með farangursmóttöku og nýtt farangursflokkunarkerfi í kjallara.
Í nýja töskusalnum eru þrjú stærri og breiðari farangursmóttökubönd, en gert er ráð fyrir að síðar geti tvö bönd bæst við.
Veitingasvæði og nýir landgangar
Árið 2024 stækkaði komuverslun Fríhafnarinnar auk þess sem nýtt veitingasvæði opnaði á annarri hæð. Veitingasvæðið fékk nafnið Aðalstræti og var það hönnunarteymið HAF Studio sem hannaði svæðið. Áhersla var lögð á að skapa heildrænt rými sem minnir á útisvæði og stemningu miðborgar Reykjavíkur.
Á fyrstu mánuðum 2025 voru svo nýir landgangar og rútuhlið tekin í notkun auk þess sem nýtt biðsvæði opnaði á annarri hæð álmunnar.
Lykilþáttur í framtíð KEF
Austurálman felur í sér nærri 30% stækkun flugstöðvarinnar og er lykilþáttur í framtíðarþróun flugvallarins. Nýir landgangar og rútuhlið bæta afgreiðslu flugvéla og upplifun farþega.
Á framkvæmdatíma hennar munu 4-5 af núverandi landgöngum lokast. Fyrstu árin munu nýir landgangar og rútuhlið í austurálmu því gera mögulegt að halda uppi þjónustustigi á meðan framkvæmdir við tengibyggingu standa yfir. Næsti áfangi í þróun flugvallarins, bygging tengibyggingar, er þegar hafin.
Í hverju felast breytingarnar?
Nýtt farangursflokkunarkerfi
Nýtt farangursflokkunarkerfi eykur afköst og greiðir fyrir afhendingu farangurs til farþega.
Stærra og betra veitingasvæði
Með rýmra og betra veitingasvæði ættu öll að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Nýr komusalur og meira rými
Rýmri og betri aðstaða fyrir farþega felur meðal annars í sér stærri komusal með færiböndum og rúmgott veitingasvæði.
Fjórir nýir landgangar
Fjórir nýir landgangar þar sem farþegar geta gengið beint út í flugvél og tvö ný rútustæði sem flytja farþega að yfirbyggðum fjarstæðum.
Austurálman í tölum
Flatarmál 25.000 m2
Austurálma verður um 25 þúsund fermetrar en til samanburðar er Laugardalshöll 17 þúsund fermetrar.
Lengd 124,5 m
Lengd Austurálmu verður 124,5 og verður hún því álíka löng og Bankastræti í Reykjavík.
Breidd 66 m
Austurálma verður 66 m á breidd sem svipað og dæmigerður knattspurnuvöllur.
Hæð 31 m
Austurálma verður 31 m á hæð en til samanburðar eru turnar Akureyrarkirkju 26 m.