Flughlaðið við austurálmu prófað

Í dag fór fram svokölluð ORAT prófun á flughlaðinu við austurálmu flugstöðvarinnar. Markmiðið var að ganga úr skugga um að allir ferlar og búnaður væru tilbúin fyrir opnun austurálmu fyrir farþega.
Fyrst var snjór hreinsaður af flughlaðinu og að því loknu keyrðu tvær flugvélar á stæði 80L og 80R við austurálmu.
Leiðbeiningarbúnaður og tenging við landgöngubrýr voru prófuð, sem og festingar á jörðu niðri. Þá voru verkferlar við eldsneytisgjöf, fermingu og affermingu farangurs prófaðir sem og notkun stiga og farþegabifreiða á svæðinu. Að lokum fóru vélarnar báðar í gegnum afísingarferli.
„Hér er búið að ganga mjög vel, hérna erum við með virka þátttöku og góða samvinnu hinna ýmsu aðila úr flugvallarsamfélaginu. Svona heildstæð prófun og æfing á nýjum innviði hefur gengið og myndi ekki ganga svo vel ef allir tækju ekki virkan þátt,“ segir Böðvar Schram, ORAT sérfræðingur í mannvirkjum og innviðum hjá Isavia.
Hér má sjá fleiri myndir frá prófuninni:





