Landgangar í austurálmu prófaðir

Frétt

Í dag fór fram svokölluð ORAT prufukeyrsla á landgöngum og rútuhliðum í austurálmu flugstöðvar KEF, en um er að ræða rennslis- og viðbragðaprófun á ferlum þegar farþegar fara um borð í rútur og flugvélar. Fjórir nýir landgangar og tvö rútuhlið verða svo tekin í notkun í marsmánuði á þessu ári.

Sjálfboðaliðar frá Isavia og fleiri fyrirtækjum sem starfa á flugvellinum tóku sér hlutverk farþega og fóru í gegnum afgreiðsluhlið. Markmiðið með prófuninni var m.a. að ganga úr skugga um að allir ferlar séu skýrir og að allt gangi eins og það á að ganga, en prófanir sem þessar eru mikilvægur hluti af ORAT aðferðafræðinni, sem innleidd hefur verið í stækkunarverkefninu á Keflavíkurflugvelli.

ORAT (Operational Readiness, Activation & Transition) er aðferð til að tryggja að í framkvæmdum, á borð við þær sem hafnar eru á Keflavíkurflugvelli, sé allt tilbúið á fyrirfram ákveðnum tíma. Þetta á við um byggingar, margskonar kerfi og ferla - og auðvitað starfsfólk. Viðskiptavinir okkar á borð við flugfélög gera áætlanir sínar langt fram í tímann. Þess vegna er mikilvægt að tengja þau og aðra hagaðila við verkefnin þannig að allt verði tilbúið á tilsettum tíma.

Ný austurálma mun stækka flugstöðina um 30%. Stækkunin bætir aðstöðu fyrir farangursmóttöku í nýjum komusal, bætir við fjórum nýjum landgöngum og tveimur rútuhliðum, auk stærra veitingasvæðis og stærri fríhafnar.