Bakað býður upp á bakkelsi fyrir brottfararfarþega
Kaffihúsið og handverksbakaríið Bakað hefur opnað í verslunar- og veitingarými Keflavíkurflugvallar, en fyrr í sumar opnaði Bakað á innritunarsvæðinu á 1. hæð flugvallarins. Þar er meðal annars boðið upp á samlokur, pizzur, heilsusamlega safa, salöt, gómsætt bakkelsi og rjúkandi heitt gæðakaffi frá Te & kaffi.
„Við erum mjög ánægð að geta boðið brottfararfarþegum upp á nýbakað brauðmeti og annað góðgæti á leið þeirra úr landi. Við opnuðum í innritunarsalnum fyrr á þessu ári og hafa viðtökurnar verið ótrúlega góðar,“ segir Ágúst Einþórsson eða Gústi bakari, sem er hugmyndasmiður að vöruframboði Bakað.
HAF Studio sá um hönnun staðanna tveggja en hönnunarstofan hefur undanfarin ár komið að hönnun fjölmargra veitingastaða og mathalla.
„Farþegum á flugvellinum hefur fjölgað töluvert á síðustu mánuðum og mikilvægt er að tryggja að allir í þessum stóra hópi finni eitthvað við sitt hæfi í flugstöðinni, bæði í brottfarar- og innritunarsal. Vöruúrval Bakað hentar farþegum á leiðinni í flug sérstaklega vel og það er því frábært að búið sé að opna Bakað í brottfararsal. Þannig getum við bætt upplifun farþega og aukið við þjónustu á vellinum,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslana og veitinga hjá Isavia.