Framkvæmdir á fullri ferð á KEF


Framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli halda áfram og er nóg við að vera þessar vikurnar. Þetta árið er júlí mánuður er ekki einungis háanna tími ferðamanna á flugvellinum heldur eru framkvæmdir við Austurálmu, stærstu stækkun flugvallarins til þessa, í fullum gangi sem og viðbygging við Suðurbyggingu, en það er sá hluti flugstöðvarinnar sem hýsir C-hlið.

Stækkun Keflavíkurflugvallar er ákvörðuð eftir langtímaspám um farþegafjölda og þarfir samfélagsins. Austurálman er lykilþáttur í framtíðarþróun flugvallarins. Fullkláruð verður hún stærri en upphaflega flugstöðvarbygging sem vígð var árið 1987 og mun m.a. hýsa fjóra nýja landganga, tvö rútuhlið, nýtt farangursflokkunarkerfi og stærra veitinga- og biðsvæði. Á komandi haustdögum eru það tveir nýjir landgangar og nýtt veitingasvæði sem verða tekin í notkun og eykst þar með umtalsvert pláss og þægindi fyrir farþega á leið í flug.

Framkvæmdir við stækkun Suðurbyggingar hófust í janúar 2024 og eru áætluð verklok á þessari 1900 fermetra stækkun um mitt ár 2025. Breytingunum fylgir stórbætt aðstaða fyrir farþega, til að mynda með stærra biðrými, nýjum brottfararhliðum auk þess sem veitinga- og verslunarrými stækkar.

Meðfylgjandi myndir sem teknar voru á dögunum tala sínu máli. Til að átta sig á raunverulegum stærðum má hafa það bak við eyrða að Austurálman er 124,5 metra löng eða álíka og Bankastræti í Reykjavík, 66 metrar breið, sem er svipað og knattspyrnuvöllur og 31 metra há en til samanburðar er Akureyrarkikja 26 metrar á hæð.