Grunnskólanemar hanna framtíð flugvallarins

Sköpunargleðin var við völd í heimsókn Isavia og Mace til grunnskólanema í Háaleitisskóla í síðasta mánuði. Nemendur fengu innsýn inn í þróun og uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli og starfsfólk Isavia og Mace fengu dýrmætar tillögur í þróun næstu ára.

Frétt

Þann 22. og 24. apríl síðastliðinn heimsóttu fulltrúar Isavia, sem sér um rekstur og þróun Keflavíkurflugvallar, og breska bygginga- og ráðgjafafyrirtækið Mace, nemendur í 4. bekk í Háaleitisskóla upp á Ásbrú í Reykjanesbæ. Nemendurnir fengu kynningu á flugvallarsamfélaginu, starfsumhverfi þess og þróun KEF á skemmtilegan og skapandi hátt.

Nemendurnir skoðuðu kynningarefni frá fræðsludeildum fyrir börn á flugvöllum í Manchester og Kraká og fengu síðan það verkefni að hanna slíkt fyrir KEF. Óhætt er að segja að ekkert skorti á hugmyndaauðgi og skapandi hugsun hjá krökkunum. Næst byggðu nemendurnir fræðsludeildina úr endurnýtanlegu efni sem þau höfðu safnað fyrir heimsóknina. Útkoman var frumleg og skemmtileg og mun án efa nýtast Isavia við þróun Keflavíkurflugvallar.

Markvisst samstarf með nærsamfélaginu, þar sem gagnkvæm miðlun þekkingar og reynslu skiptir sköpum, er mikilvægur þáttur í sjálfbærni rammanum sem var þróaður og settur fyrir framkvæmdirnar á flugvellinum til að tryggja að þar væri sjálfbærni höfð að leiðarljósi.

Heimsóknir sem þessar eru mikilvægur liður í samstarfinu auk þess að vera skemmtilegar og veita starfsfólki áhugaverðan innblástur í þróun flugvallarins. Heimsóknin í Háaleitisskóla er sú þriðja af sínu tagi, en áður var Heiðarskóli í Reykjanesbæ heimsóttur tvisvar.