Loksins café & bar opnar í nýrri mynd
Loksins hefur opnað í nýrri mynd á Keflavíkurflugvelli undir heitinu Loksins café & bar. Þar geta gestir flugvallarins slakað á í glæsilegu nýju rými, hönnuðu af HAF studio, og fengið sér bæði mat og drykk.
Loksins bar var rekinn á Keflavíkurflugvelli um árabil og opnar nú aftur í breyttri mynd. Auk þess að bjóða upp á fjölbreytt úrval drykkja líkt og gestir flugvallarins hafa notið síðustu ár býður Loksins Café & bar upp á vel útfærðan matseðil. Á boðstólnum er ýmist góðgæti á borð við nýbakað, handgert bakkelsi, morgunverðarskálar, salöt, ferskt ciabatta og aðra girnilega heita rétti svo öll ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Matreiðslumaðurinn Semjon Karopka, yfirkokkur á veitingastöðunum Pasta í Borg 29 mathöll og Hipstur í Gróðurhúsinu í Hveragerði, hefur tekið við stöðu yfirkokks Loksins Café & bar en hann hefur margra ára reynslu úr veitingageiranum á Íslandi.
„Ég hlakka mikið til að opna Loksins Café & Bar aftur á flugvellinum í nýrri mynd og er mjög stoltur af þeim matseðli sem við munum bjóða gestum flugvallarins upp á. Áhersla verður á íslenskt hráefni en við höfum verið að þróa nýja rétti og munum bjóða upp á girnilegt úrval í bæði mat og drykk þannig að allir ættu að geta fengið eitthvað við sitt hæfi. Við verðum með frábært framboð af góðum morgunverðarréttum, íslensku bakkelsi og allskonar smáréttum sem kitla bragðlaukana og passa vel við Loksins Café & Bar stemninguna frá morgni til kvölds,“ segir Semjon.
Ný staðsetning Loksins Bar & Café er við C-hliðin á flugvellinum, í næsta nágrenni við veitingastaðinn Hjá Höllu. HAF Studio sá um hönnun staðarins og er mikið lagt upp úr betri hljóðvist og hlýlegri bar- og kaffihúsastemningu. Skírskotun í íslenska menningu, samtímalist og afþreyingu prýðir veggi staðarins.
„Loksins opnum við Loksins Café & Bar aftur og núna á mun stærra svæði í fallegu og björtu rými í suðurbyggingu flugvallarins. HAF Studio hefur hugsað út í hvert smáatriði til að skapa huggulegt rými fyrir gesti til að upplifa sannkallaða íslenska miðborgarstemningu,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslunar og veitinga á Keflavíkurflugvelli. „Við erum stöðugt að betrumbæta upplifun gesta flugvallarins. Loksins Café & Bar er skyldustopp margra gesta okkar og við höfum sannarlega fundið fyrir söknuði gesta á Loksins. Það gleður okkur því að geta nú aftur boðið upp á þennan góða viðkomustað, nú í stærri og bættri mynd.“