Markvisst samstarf með nærsamfélaginu 2023
Þróun og uppbygging Keflavíkurflugvallar er umfangsmikið verkefni sem hefur áhrif á umhverfi, samfélag og efnahag nærsamfélagsins í heild sinni. Til að tryggja að sjálfbærni sé haft að leiðarljósi hvarvetna í þróun flugvallarins hefur Isavia þróað sérstakan sjálfbærniramma fyrir framkvæmdir á grundvelli sjálfbærnistefnu fyrirtækisins.
Markvisst samstarf með nærsamfélaginu er mikilvægur þáttur í sjálfbærnirammanum þar sem lögð er áhersla á að hafa jákvæð áhrif inn í nærsamfélagið og vera þar virkur þátttakandi. Áhersla hefur verið lögð á virkt samtal við stofnanir og samtök í nærsamfélaginu um hvernig megi efla þar einstaklinga til atvinnu, þar sem gagnkvæm miðlun þekkingar og reynslu skiptir sköpum.
Á síðasta ári voru fjölmörg verkefni unnin að þessu markmiði. Þar voru til að mynda haldnar vinnustofur með aðilum úr nærsamfélaginu, sérfræðingar sem koma að framkvæmdum við Keflavíkurflugvöll heimsóttu skóla, námsstofnanir og starfsendurhæfingarstöðvar og tíma og fjármagni veitt í sjálfboðastarf, t.d. tengt umhverfismálum.
Virkt samtal við nærsamfélagið
Á árinu skipulagði Isavia nokkrar árangursríkar vinnustofur í kringum starfsþróun og sjálfbærni á Keflavíkurflugvelli. Vinnustofum sem þessum er ætlað að koma af stað og viðhalda samtali hvernig Isavia og Keflavíkuflugvelli sem vinnustaður geti komið á móts við þarfir fólks í nærsamfélaginu. Þá er lögð áhersla á að kynna námsframboð og starfskosti, m.a. til þess að sporna við atvinnuleysi á svæðinu.
Á vinnustofurnar mættu fulltrúar frá Ístak, Kadeco, Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum (MSS), Keili, Fjölbrautaskóla Suðurnesja (FSS), Samtökum iðnaðarins, Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ,Vinnumálastofnun, Virk og Rafiðnaðarsambandinu.
Í kjölfar vinnustofu sem haldin var í apríl var ákveðið að setja á fót smærri starfshóp sem vinnur náið saman og tekur fyrir tillögur um það hvernig mæta má áskorunum sem svæðið stendur frammi fyrir, eins og atvinnuleysi, virkni aðila í samfélaginu og að þróa færni og auka tækifæri til menntunar. Þessi hópur hefu nú þegar rætt tillögur af verkefnum fyrir 2024.
Stuðningur við starfsendurhæfingu
Í vor heimsótti starfsfólk Isavia Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Samvinnu – starfsendurhæfingu. Þar var haldin kynning fyrir um þrjátíu manns til að veita þeim innsýn í ýmis störf á flugvellinum og störf í tengslum við þróun hans. Sérfræðingar Isavia og Mace fóru yfir starfsferil sinn og ræddu ákvarðanir sem leiddu þau til starfa hjá Isavia. Í heimsókninni var sérstaklega gagnlegt að bera saman ólíka starfsferla og hvernig ólíkar ákvarðanir geta leitt aðila inn á sama vinnustaðinn. Í lokin gafst svo tækifæri til spurninga og að fá ráðleggingar hjá sérfræðingum Isavia um störf, tækifæri og atvinnuferil.
Tilgangur heimsóknanna er að veita innsýn í þau fjölbreyttu störf sem unnin eru á Keflavíkurflugvelli og við þróun hans. Áhersla er lögð á að eiga virkt samtal og efla einstaklinga til atvinnu.
Starfsfræðsla ungs fólks
Isavia heimsækir reglulega menntastofnanir á svæðinu með kynningar eða verkefni sem gagnast nemendum.
Fjölbrautaskóli Suðurnesja fékk heimsókn frá starfsfólki flugvallarins, þar sem útskriftarnemar fengu að kynnast fjölbreyttum störfum í tengslum við stækkun flugstöðvarinnar. Nemendur tóku vel á móti gestunum og spurðu þá spjörunum úr, sem er til marks um áhuga þeirra á þeirri vinnu sem fram fer á flugvellinum.
Þá fengu grunnskólanemar í Heiðarskóla innsýn í framtíðarstörf á flugvellinum. Haldin var skapandi vinnustofa með 4. bekkingum þar sem þau fengu það verkefni að hanna og byggja fræðsludeild fyrir flugvöllinn úr endurnýjanlegum efni sem þau höfðu safnað. Óhætt er að segja að þar hafi hugmyndirnar farið á flug. Næst byggðu nemendurnir fræðsludeildina úr endurnýtanlegu efni sem þau höfðu safnað. Útkoman var frumleg og skemmtileg og mun án efa nýtast Isavia við þróun Keflavíkurflugvallar. Einnig fengu nemendur í 9. og 10. bekk kynningu á mögulegum framtíðarstörfum á flugvellinum þar sem áhersla var lögð á að ögra staðalímyndum um störf á flugvellinum og í byggingariðnaði.
Það er afar verðmætt fyrir Isavia og flugvallarsamfélagið að starfsfólk gefi sinn tíma og orku í verkefni sem þessi. Það skiptir máli að íbúar suðurnesja, sem og hugsanlegir tilvonandi starfskraftar, séu upplýstir um það sem fram fer á flugvellinum og hvernig það hefur áhrif á samfélagið allt.
Sjálfboðastarf starfsfólks
Starfsfólk hefur fengið tækifæri að styðja ýmis góðgerðarmál. Níu starfsmenn fóru hálfan dag með umhverfisverndarsamtökunum Blái herinn til að þrífa upp strandir við Garðskaga á Suðurnesjum. Safnaðist í heild um 160kg af rusli, sem samsvarar söfnun á um 18kg af rusli á hvern starfsmann.
Þá fóru sex starfsmenn og gáfu vinnu sína í verslun Rauða krossins í Keflavík, þar sem bæði var aðstoðað að flokka í gegnum fatnað og afgreiða viðskiptavini í versluninni. Rauði krossinn í Keflavík vinnur mörg verkefni í nærsamfélaginu, og til stendur á árinu 2024 að vinna að nánar saman.
Næsta ár 2024
Nú þegar hefur vinna hafist við að móta verkefni í nærsamfélaginu fyrir næsta ár. Á dagskrá er samstarf með fleiri grunnskólum og viðbætur á samstarfsaðilum. Mikinn lærdóm má draga úr þeim ýmsu verkefnum sem unnin voru árið 2023 og með samtali við vinnuhóp hefur verið hægt að taka við ábendingum og viðbótaverkefnum.