Öryggismál í fyrirrúmi hjá Isavia

Markmiðið í framkvæmdum á vegum Isavia er alltaf að engin slys verði og að allt starfsfólk komi heilt heim.

Austurálma feb. 24
Frétt

Isavia leggur mikla áherslu á öryggi starfsfólks, hvort heldur sem er í rekstri flugvallarins eða á meðan framkvæmdum stendur. Hartmann Rúnarsson, starfsmaður Isavia og yfirverkefnastjóri við byggingu austurálmunnar, segir að markmiðið sé alltaf það að engin slys verði og að allir komist heilir heim að vinnudegi loknum.

Til að ná þessu markmiði er lögð áhersla á fræðslu allra sem vinna á verkstað, en einnig þeirra sem heimsækja verkstað í öðrum erindum. Skerpt er á þekkingu fólks í öryggismálum á daglegum og vikulegum fundum, þar sem farið er yfir mikilvægustu þættina.

Ítarleg atvikaskráning skiptir líka sköpum þegar kemur að því að koma í veg fyrir slys. Hartmann segir að þar skipti ekki síst máli að skrá það sem hann kallar „næstum því slys“, þ.e.a.s. atvik þar sem ekki varð slys, en slys hefði getað orðið. Með því að skrá þessi atvik sé hægt að laga það sem laga þarf svo slys verði aldrei.

Hann segist ánægður með árangurinn, en við byggingu austurálmu varð eitt alvarlegt slys. Það sé vissulega einu slysi of mikið, en viðkomandi hefur náð bata og er aftur kominn til starfa.