Vel heppnuð heimsókn háskólanema á KEF
Þrjátíu háskólanemar frá Háskóla Íslands heimsóttu Keflavíkurflugvöll í síðasta mánuði í þeim tilgangi að kynnast þeim fjölbreyttu störfum sem koma að framkvæmdum við stækkun Keflavíkuflugvallar.
Isavia, sem sér um rekstur og þróun Keflavíkurflugvallar, og breska bygginga- og ráðgjafafyrirtækið Mace buðu til skoðunarferðarinnar og voru háskólanemarnir einstaklega áhugasamir um þau fjölbreyttu störf sem eru í boði á vellinum.
Í ferðinni voru meðal annars heimsóttar starfsstöðvar Isavia og Mace á Keflavíkurflugvelli og að heimsókn lokinni kynntu Brynjar Vatnsdal og Jóhannes Bjarni Bjarnason, deildarstjórar hjá Isavia, starfsemina og alla þá möguleika sem störfin bjóða upp á.
Það er ánægjulegt að bjóða flottum hópi háskólanema í heimsókn á Keflavíkurflugvöll og kynna fyrir þeim þau fjölbreyttu verkefni sem eru í þar í gangi. Framundan eru umfangsmikil verkefni sem munu gerbreyta flugvellinum. Þessar breytingar munu ekki einungis gera fleiri farþegum kleift að fara um völlinn heldur er markmiðið að gera alla upplifun farþega betri, allt frá komu til brottfarar. Á flugvellinum er alltaf verið að leita að góðu fólki til að starfa og það var því gaman að fá að kynna tækifærin fyrir þessum hópi.
Heimsóknin var liður í Atvinnudögum Háskóla Íslands 2024. Þróun og uppbygging Keflavíkurflugvallar er umfangsmikið verkefni sem hefur áhrif á umhverfi, samfélag og efnahag nærsamfélagsins í heild sinni.
Til að tryggja að sjálfbærni sé höfð að leiðarljósi hvarvetna í þróun flugvallarins hefur Isavia þróað sérstakan sjálfbærniramma fyrir framkvæmdir á grundvelli sjálfbærnistefnu fyrirtækisins. Markvisst samstarf með nærsamfélaginu er mikilvægur þáttur í sjálfbærnirammanum þar sem lögð er áhersla á að hafa jákvæð áhrif inn í nærsamfélagið og vera þar virkur þátttakandi. Áhersla hefur verið lögð á virkt samtal við stofnanir og samtök í nærsamfélaginu, hvernig megi efla þar einstaklinga til atvinnu, þar sem gagnkvæm miðlun þekkingar og reynslu skiptir sköpum.