ORAT-aðferðin kynnt fyrir starfsfólki Nýja Landspítalans

Frétt

Sérfræðingar á vegum Isavia heimsóttu nýlega starfsfólk Nýja Landspítalans við Hringbraut til að kynna ORAT-aðferðina. Aðferðin hefur verið notuð hjá Isavia í um áratug og nýst vel í framkvæmdum við stækkun Keflavíkurflugvallar og hefur hún meðal annars stuðlað að betra skipulagi, auknu öryggi og skýrari verkferlum.

ORAT-aðferðin hefur ekki áður verið nýtt í framkvæmdum við nýjan Landspítala og var markmið fundarins að kynna aðferðina fyrir verkfræðingum NLSH og kanna hvort hún gæti orðið gagnleg við áframhaldandi innleiðingu og undirbúning rekstrar.

Á kynningarfundinum fóru sérfræðingar Isavia ítarlega yfir helstu þætti ORAT-aðferðarinnar, ávinning hennar og þau umbótatækifæri sem hún býður upp á fyrir stór og fjölbreytt verkefni. Fundargestir fengu jafnframt innsýn í hvernig ORAT hefur verið beitt í raunverulegum aðstæðum á flugvellinum og hvaða lærdómur hefur fengist af því ferli.

ORAT (Operational Readiness, Activation & Transition) er alþjóðlega viðurkennd aðferðafræði sem miðar að því að tryggja að mannvirki, tæknikerfi, verkferlar og mannauður séu fullkomlega tilbúin þegar nýtt húsnæði eða ný starfsemi fer í notkun.

Með aðferðinni er áhersla lögð á heildstæða verkefnastjórnun, skýra ábyrgðarskiptingu og markvissa prófun á öllum lykilþáttum framkvæmdar áður en rekstur hefst. Isavia og NLSH hafa átt gott samstarf undanfarin ár, enda eru bæði fyrirtækin í eigu ríkisins og deila sameiginlegum hagsmunum af öflugri þekkingarmiðlun. Hægt er að kynna sér ORAT-aðferðina nánar hér https://www.kefplus.is/frettir/orat-adferdafraedin