Isavia kynnti ORAT aðferðafræðina á málstofu Nýja Landspítalans

Sérfræðingar Isavia kynntu ORAT aðferðafræðina á árlegri aðventumálstofu Nýja Landspítalans.

Frétt

Sérfræðingar Isavia kynntu ORAT aðferðafræðina á árlegri aðventumálstofu Nýja Landspítalans (NLSH) á dögunum en þetta er annað skiptið sem Isavia fær að kynna ORAT fyrir Nýja Landspítalanum.

Aðventumálstofa NLSH er vettvangur fyrir hagaðila til þess að ræða framgang verkefna NLSH og dagskrá málstofunnar fjallaði að þessu sinni um hönnun, framkvæmdaatriði, tæki og búnaðarmál. Þá voru einnig kallaðir til sérfræðingar með erindi um ýmislegt sem gæti komið að góðum notum við verkefnin.

Böðvar Schram og Marta Sigurðardóttir sérfræðingar hjá Isavia fluttu erindi um innleiðingu og notkun á ORAT eða Operational Readiness, Activation & Transition. Þessi aðferðarfræði hefur verið notuð há Isavia í um áratug og var innleidd í þróunarverkefninu á Keflavíkurflugvelli með góðum árangri. Hún hefur verið sérstaklega mikilvæg í stórum verkefnum.

Það er Isavia mikil ánægja að geta miðlað reynslu af ORAT og hjálpað öðrum fyrirtækjum með stór framkvæmdarverkefni. Frá innleiðingu hjá Isavia hefur verið skýrt að aðferðafræðin gæti nýst fleiri aðilum og með áframhaldandi miðlun reynslu og samvinnu er ljóst að ORAT aðferðafræðin geti verið íslensku samfélagi til mikilla hagsbóta.